Wednesday, April 21, 2010

everything has to end

Það er nú aldeilis hvað maður fær mikla athygli fyrir að vera Íslendingur. Þegar ítalir spurja mig hvaðan ég er þá hugsa ég mig nú tvisvar um áður en ég ríf fram íslenska stoltið. Viðbrögðin eru nú blendin, byrjar yfirleitt á „oooo váááá vulcano“ og svo fylgir einhver blótsyrði eða tjáning á ást á Íslandi og náttúruöflum. Hvort sem ég fæ blótsyrðin eða ástina þá get ég alltaf fengið ítali til að elska mig, ísland og staðreyndina að það er flugbann er á allri Evrópu.

Það er verða komið að leikslokum hér á Ítalíu og þá get ég ekki annað en horft til baka og reynt að koma með einhverja ágætis samantekt á lífi mínu hér. Flestir öfunda mig af þessari lífsreynslu og satt best að segja öfunda ég sjálfa mig, ef það er þá hægt. Mér bauðst þetta ótrúlega tækifæri að flytja til Ítalíu, búa hjá ítalskri fjölskyldu og starfa sem enskukennari og stóra systir hjá 3 mannafjölskyldu (núna fjögurra manna reyndar) með þernu, hund og 5 fiska. Ég var nú á báðum áttum þar sem ég er ekki þekkt fyrir að vera aðdáandi barna og hef ekki mikið unnið með börnum í gegnum tíðina en þar sem ég var stútfull af útþrá og ævintýra þrá og þráði ekkert heitar en að yfirgefa Akureyri og Ísland að þá ákvað ég að slá til. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun.

Mílanó er dýr borg, höfuðborg tískunnar. Það tók mig sinn tíma að komast inní mitt rétta umhverfi hér, eiginlega aðeins of seint því ég er loksins búin að læra að leita að réttu stöðunum, klúbbunum, kaffihúsunum og atburðum þar sem maður þarf ekki að borga milljón og eina fyrir bjórglas. Ég var oft að tala um hvað ítalir væru ekki mínar týpur, ofurgelaðir súkkulaði strákar í bleikum skyrtum sem eru girtar ofan í buxnastrengin, það eru bara týpurnar sem voru að hanga á sömu skemmtistöðunum sem ég fór á. Núna fann ég hinsvegar heitustu ítalina en það er að sjálfsögðu þegar ég er við það að fara. Fjölskyldan hér úti hafði einmitt orð á því að ég myndi sennilegast finna mér kærasta þegar ég væri að fara heim.

Ég er búin að sjá og gera hluti sem ég gat ekki ímyndað mér að einhverntímann yrðu að raunveruleika og hvað þá svona ótrúlega skemmtilegir. Ég er búin að fara á 3 stóra fótboltaleiki á San Siro, sjá Chelsea spila (og vera líka svona ótrúlega nálægt elskunni minni honum Lampard) fara á þrenna tónleika og ferðast um Ítalíu. Svona ofan á þetta allt saman þá held ég að ég sé búin að breytast frekar mikið, ég segi og geri hluti allt öðruvísi en áður, tækla vandamál allt öðruvísi en áður og viðhorf mitt hefur breyst til hins betra. Það er svo ótrúlega skrýtið að hafa eignast svona góðar vinkonur hérna úti og ég hef ekki eina einustu hugmynd ef ég mun einhverntímann sjá þær aftur. Var að kveðja eina um daginn sem var sjálf að fara heim og samtalið var einhvernveginn svona:

Ég: „ooo þetta er búið að vera svo gaman hérna úti“

Hún: „Já alveg sammála þér, skrýtið að þetta sé búið“

Ég: „Gangi þér vel á ferðalaginu heim, það var ótrúlega gaman að kynnast þér“

Hún: „Takk fyrir og sömuleiðis, hafðu það gott í lífinu“

Kviss bamm búmm. Ég mun sennilega aldrei sjá hana aftur! Þetta er eiginlega bara hálf vandræðalegt.

Þótt þetta hljómi allt voða frábært og geðveikt, þá hafa líka verið hundleiðinlegir tímar hér. Veðrið hér á tímabili var náttúrulega alveg fáranlega ömurlegt, með slyddu í marga daga í röð og grámyglu og veseni. Ég hefði líka alltof mikinn tíma fyrir sjálfa mig og horfði sennilega á 100 bíómyndir og allar sex and the city seríurnar og borðaði með því. Var löt í ræktinni og datt úr öllu formi en ég meina, maður deyr nú ekki á því að vera ekki fit í nokkra mánuði ! Við tekur bara skemmtilegar æfingar þegar ég kem heim og satt best að segja, þá get ég ekki beðið! Er svo tilbúin í það að láta lífið á hlaupabrautinni!

Aupair er ódýrasta leiðin til að búa erlendis en líka mjög erfið. Fyrir alla þá sem hafa áhuga á börnum og að vinna með börnum þá segi ég bara GO FOR IT ef ekki, þá er þetta sennilega ekki rétti vettvangurinn. Allir þeir sem eru tilbúnir að prófa eitthvað nýtt, kynnast nýrri menningu, siðum og venjum, tilbúnir að breyta sínum eigin venjum og siðum þegar búið er hjá nýrri fjölskyldu ættu að skella sér. Svo er náttúrulega alltaf hægt að pakka öllu sínu dóti niður, flytja erlendis og fá sér vinnu eða fara í skóla. Það eina sem ég er að reyna að segja er að allir ættu að prófa að búa erlendis!

Ætla svo að enda þetta blogg á nokkrum vel völdum myndum frá dvöl minni hér á Ítalíu. Takk allir fyrir að fylgjast með mér og hafa áhuga á því sem ég hef verið að gera. Þetta mun sennilega verða mitt síðasta blogg héðan frá Ítalíu en endilega haldið áfram að lesa um ævintýri mín í sumar og næsta haust. Aldrei að vita nema að ég leggi af stað til annars lands og geri allt vitlaust þar líka!

















love and hugs

Ebba Karen

Wednesday, March 31, 2010

"er heitt hérna eða?"

Lóan er komin að kveða burt snjóin
kveða burt leiðindin, það getur hún

Krakkar, veðrið síðustu daga er búið að vera svo geðveikt. Síðastliðin sunnudag var bara hreint og beint tan veður. Hæst mældist hitinn 22 gráður. Það er ekki hægt að gera neitt annað en að elska það.
Síðustu vikur eru búnar að vera vægast sagt mjög skemmtilegar, tónleikar, ferðalög og eintóm skemmtileg heit.
Tókum skyndiákvörðun og hoppuðum uppí lest sem fór með okkur til Pavia, lítill háskólabær klukkutíma frá Mílanó, þar sem búa um 70 þúsund manns og 30 þúsund af þeim eru háskólanemar og flest allir í verkfræði eða stærðfræði. Þar elduðum við góðan mat, kíktum út á lífið og morgunin eftir skelltum við okkur niður að vatni og lágum í sólinni og höfðum það notalegt.



Ég skellti mér líka á Hot Chip tónleika sem voru alveg ótrúlega góðir, þeir eru svo ótrúlega hressir og flottir á sviði og fá alla til að dansa og hoppa eins og vitleysinga. Það verður nú að teljast líka gott afrek að fá Ítali til að hrista á sér bossann, þeir geta verið svo ótrúlega stífir og þurrir þessar elskur. Ég mætti alveg ready með ofur linsu og flass og ætlaði að ná góðum myndum en mér var ekki hleypt inn með vélina, frekar fúlt.

Er líka búin að skella mér í helgarferð til Flórens og Písa. Ég og Rebecca vorum að couch surfa í fyrsta skipti og verður að segjast að sú reynsla heppnaðist rosalega vel. Við höfðum semsagt samband við tvo stráka sem voru með lausa sófa og þeir buðu okkur fría gistingu, sem er einstaklega ljúft þegar maður á ekkert alltof mikinn pening. Flórens er borg sem er stútfull af fallegum og frægum byggingum, fallegum götum, söfnum og menningu. Við þurftum að taka borgina á svolitlum handahlaupum, en þegar maður hugsar útí það þá getur maður ekki skoðað allt allsstaðar. Ítalía er með frægar bygging á hverju götuhorni, í hverri einustu borg og hver einasta steinhella er mikilvæg í sögulegu samhengi.
Við náðum samt að sjá allt það helsta og enduðum svo á að fara til Písa. Stoppuðum mjög stutt í þeirri borg því við fórum einungis til að sjá skakka turninn sem er svo sannarlega skakkur! Það var í boði að fara upp en það kostaði 15 evrur, ég ætlaði sko ekki að borga 15 evrur fyrir að labba upp 300 tröppur. Jáneitakk!


Síðast liðin sunnudag hittumst við nokkur úr Couch Surfing samfélaginu og gáfum knús hjá dómkirkjunni. Þetta er herferð sem byrjaði í Bandaríkjunum, dreifa ást og kærleik til allra þeirra sem vilja og ég lét plata mig út í þetta. Við bjuggum til skilti sem stóð á "Free Hugs" eða "Abbracci gratis" og föðmuðum alla þá sem vildu. Ég var nú þokkalega efins fyrst, hélt að þetta yrðu bara endalaust af einhverjum pervertum og heimilislausu fólki sem lyktar illa en þetta varð svo bara ótrúlega skemmtilegt. Það voru alveg nokkrir karlmenn sem vildu mynda okkur í bak og fyrir og komu aftur og aftur til að fá knús, en utan við það þá skemmti ég mér ótrúlega vel og kynntist fullt af skemmtilegu fólki.




Núna líður tíminn svo ótrúlega hratt, afþví það styttist alltaf meir og meir í heimkomu þá er eins og vikurnar hverfi bara. Ég get svo svarið það að vikan er bara mánudagur, miðvikudagur, föstudagur og laugardagur, svo hratt líður tíminn. Ég reyni bara að hafa gaman hvern einasta dag, hvort sem það er að njóta sólarinnar eða hitta stelpurnar yfir kaffibolla, að ferðast og skoða og gera allt er hálf ómögulegt núna. En ég er bara virkilega ánægð með þennan tíma sem ég hef haft hér og mun sennilega aldrei gleyma þessum mánuðum, búin að eignast góðar vinkonur um allan heim svo núna hef ég enn betri afsökun til að ferðast !

Ég og Inga Dís áttum ansi skemmtileg samtal um daginn. Við erum báðar búsettar erlendis, ég á Ítalíu og hún í Bandaríkjunum og okkur finnst rosalega gaman að bera saman karlmennina og stefnumóta menninguna í okkar löndum. Við höfðum að sjálfsögðu eitthvað út á þá alla að setja sem og íslendingana en Inga Dís kom með best blönduna!
Uppskrift af hinum fullkomna karlmanni:
1/3 Bandarískur karlmaður, því þeir eru kurteisir
1/3 Ítali afþví þeir hafa útlitið
1/3 Íslendingur afþví það eru alvöru KARLmenn
Svo ef þið vitið um einhvern þannig þá megið þið endilega senda hann í pósti til mín !

Það er svo gaman þegar maður veit að maður er að gera eitthvað rétt. Áhrifin sem ég hef haft á Mariuvittoriu á þessum tíma eru gífurleg og ég er einnig búin að kenna henni fullt af sniðugum hlutum. Sem dæmi má nefna er að hún er að læra að prjóna, kann Sudoku, Mikado, fuglafit, fullt af spilum (með spilastokk), hún elskar að naglalakka sig, búa til ratleiki og ég hjálpa henni að æfa sig á píanó. Hún elskar líka að nota sömu orð og ég, t.d nice, what's up og stundum gleymi ég að tala ensku og segi "uuu jááá" og núna getur hún ekki hætt að segja það.

Ég læt þetta duga af fréttum í bili
Farin út að tana

-ebba


Tuesday, March 2, 2010

Mars er mættur


Þá er febrúar bara búinn. Mars er mættur á svæðið og þá er nú bara næstum komið að leikslokum hér á Ítalíu. Sett heimkoma er 16.maí. Þið getið fara að hlakka til !

Febrúar mánuður var alveg frábær, vægast sagt. Afmælið mitt átti sér stað, skreið inní 21 árs aldurinn með léttu skyndidjammi á klúbbnum Hollywood. Fórum þar í þeirri trú að hitta einhvern frægan þar sem þetta er vinsæll staður fyrir fræga fólkið. Okkur gekk ekki betur en svo en að við hittum þennan félaga...


Heitur ekki satt? Hann er svona eins og vaxmynda stytta, og takið líka eftir höndunum!
Svo kom þarna vikutímabil sem er sennilega bara besta vika sem ég hef átt í langan langan tíma.
Byrjaði með Kasabian tónleikum á fimmtudegi sem var algjör snilld og svo á föstudeginum hélt ég uppá afmælið mitt heima hjá Rebeccu. Elduðum tortillas sem ég var búin að sakna alveg rosalega mikið og keyptum hellings af áfengi og bjór og héldum Beer Pong mót. Að sjálfsögðu vann ég, ekki að spurja að öðru. Eftir partýið héldum við svo á klúbb sem heitir Vogue sem reyndist vera skemmtistaður fyrir samkynhneigða og satt best að segja hef ég aldrei skemmt mér jafn vel á skemmistað. Allir klæddir upp í búninga útaf Carnivali (kjötkveðjuhátið) og þarna gat maður dansað án þess að vera áreitt af alveg ótrúlega pirrandi ítölskum gaurum, því þessi ungu menn höfðu einungis áhuga á öðrum mönnum.
Virkilega athyglisvert en maður hafði bara gaman að því.

Um daginn skráði ég mig á vefsíðu sem kallast couch surfing, net samfélag til að leita þér að ókeypis gistingu um allan heim. Þessi síða er algjörlega búin að breyta lífi mínu hér því núna hlaðast inn alveg endlaust af atburðum sem meðlimir þessara síðu í Mílanó eru að skipuleggja.
Á laugardeginum eftir afmælið mitt fórum ég, Rebecca og Vala í carnival party með meðlimum couch surf síðunnar. Mættum þarna aleinar, uppdressaðar í búninga (Toga) og þekktum engan! En það voru allir svo ótrúlega viðkunnalegir og vildu endilega að við myndum kynnast sem flestum, undir lok kvöldsins var maður orðinn nokkrum vinum ríkari og skemmtum okkur hrikalega vel.


Miðvikudeginum eftir var síðan komið að því sem ég var búin að bíða eftir í langan tíma.
Staður: San Siro
Hvað: Meistaradeildin
hverjir: Inter gegn Chelsea
Ég sat á frábærum stað, mjög nálægt og gat séð leikinn vel. Var umkrind Inter aðdáendum sem horfðu á mig með skrýtnu augnarráði þegar ég var sú eina í 500 metra radíus sem hoppaði upp og fagnaði eina marki Chelsea.
Ömurleg úrslit en alveg frábær upplifun að fara á þennan leik!




Annars er veðrið að verða ansi myndarlegt. Dettur stundum upp í 15 gráður í hádeginu og í mestu sólinni og maður er hiklaust í miklu betra skapi fyrir vikið. Hefur líka sína galla en þá er erfiðara fyrir mig að halda einbeitingunni yfir lærdómnum.
Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur hér á þessum bæ, að morgni 25.febrúar fæddist lítill Cesare. Algjör rúsína en er núna mín regluleg vekjaraklukka svona yfir næturnar!


Sætur eða? Svolítið alvarlegur á svipinn, en samt algjört krútt!

En núna er maður kominn í alvarlegar plan hugleiðingar fyrir sumarið. Ég hef alveg vandræðalega góða tilfinningu fyrir þessu sumri, held að stefnan verði sett á aðra legendary ferð á LungA á Seyðisfirði og maður er að gæla við hugmyndina að fara á Rock Werchter í Belgíu. Tónlistarhátíð stútfull af frábærum tónlistarmönnum og hljómsveitum, hverjir eru til í að koma með? Tala nú ekki um brjáluðu dagskránna um miðjan júní, júbilering, 5 ára reunion úr grunnskóla, bekkjarparty, óvissuferð og við stelpurnar reynum svo vonandi að ná einum degi saman og gera e-ð villt eins og okkur einum er lagið!

Það sem er hinsvegar á planinu fram að heimkomu eru Hot Chip tónleikar og vonandi helgarferð til Flórens og sjá svo skakka turninn í Písa, Como vatn og Garda vatn. Þá er maður held ég nokkuð solid með helstu staðina á Ítalíu, er svo komin með plan að koma hingað aftur, hitta alla vinina og taka nett bakpokaferðalag á þá staði sem ég skoðaði ekki.

nóg komið af Mílanó fréttum

þangað til næst
Ebba

Monday, February 8, 2010

Febrúar er góður mánuður


Ég er svo glöð. Án gríns ég er svo ótrúlega glöð. Ég á eitt stykki miða á meistardeildarleikinn Inter-Chelsea sem fer fram þann 24.febrúar næstkomandi. Vá ég er svo glöð. Sit að vísu í Inter stúkunni þar sem Chelsea parturinn var stjarnfræðilega dýr, þannig ég þarf virkilega að halda aftur af mér þegar Chelsea skorar. Ég er með Chelsea hjarta og mun að sjálfsögðu styðja þá fram í rauðan dauðann!
Það hefði líka bara verið grátlegt að fá ekki miða, ég mætti í röð kl 06.00 og beið í 2 og hálfan tíma, var að sjálfsögðu fyrst á svæðið. Gerði sama þegar ég keypti á Inter-Milan, enda mundi afgreiðslumaðurinn eftir mér og hló þegar hann sá mig. Hann svona "fyrirgefðu en hvenær mætir þú eiginlega á svæðið?".
En að öðru..
Munið þið regnhlífasöguna mína? Þegar ég datt um regnhlífina og flaug í fangið á fjallmyndarlegum strák?
Ég býð upp á verri sögu, án gríns. Ég sat í strætó og var að hlusta á góða tónlist, var í góðu skapi og var meira segja nokkuð vel tilhöfð, hafði sett hárið í fasta fléttu og var í kápu, kjól og stígvélum. Kemur inn þessi líka vandræðalega fallegi strákur og án gríns (og nei ég er ekki að ýkja) þetta var fallegasta andlit sem ég hef séð, ég gat ekki hætt að horfa. Hann var líka eðlilegur, hann var ekki með tonn af geli og ekki í hallærislegum fötum, hann var bara fullkominn.
Þegar ég var búin að stara í dágóðar 5 mínútur þá tók ég eftir því að hann var að stara á móti, ég hugsaði svona "já ok snilld, núna heldur hann að ég sé einhver algjör klikkhaus".. en nei nei hann brosti til mín og ég fékk bara mjög góða tilfinningu fyrir þessu öllu. En þá byrjar ballið.
Þegar ég hafði loksins sannfært sjálfa mig að hann væri að gefa mér auga þá þurfti ég, því miður, að yfirgefa strætóinn. Sætið mitt var á upphækkuðum palli og hann stóð svona á móti mér og einu þrepi neðar. Ég stend upp, ætla að labba þetta fjandans eina þrep niður en nei...
.....
....
...
ég misstíg mig...
....
....
dett fram fyrir mig...
....
....
set hendurnar fram fyrir mig...
.....
.....
dett á gaurinn..og....
....
....
lem hann líka svona þéttingsfast í punginn!

Seriously, er þetta e-ð grín eða? Mig langaði bara að deyja á staðnum. Ég fór fljót að biðjast afsökunar og ég bókstaflega hljóp útúr strætónum. Note to self: Ekki gefa gaur auga í strætó, það boðar ekki gott!
Mér finnst þetta samt hundleiðinlegt. Maður fær athygli á skemmtistöðum sem maður ekki vill, maður sýnir gaurum athygli sem vilja ekkert með hana hafa og núna loksins fann ég jákvæða strauma í báðar áttir og ég þurfti að framkvæma þennan "dans" minn og skaða blessaðan drenginn. Frábært.

En svona utan við þessa niðurlægjandi strætó ferð þá er lífið bara ljúft. Fjarnámið sem ég er í er virkilega erfitt og mikið efni og er fínt að hafa e-ð krefjandi á dagskrá hjá sér.
Ný liðin helgi var ein sú mest athyglisverðasta hingað til. Byrjaði á að fara á Reggae kvöld, Tim vinur minn hér vildi endilega draga okkur stelpurnar þangað og má segja að þetta var eitt skemmtilegasta kvöldið hingað til. Mjög góð tilbreyting að vera ekki umkringd ofur geluðum súkkulaði strákum bleikum skyrtum sem eru opnar niður að nafla. Þetta var einmitt akkúrat öfugt, flestir með húfu, alltof stórum hettupeysum og alltof stórum buxum.
Á laugardeginum ætluðum svo svo á indie festival sem var svo skemmtilega sett upp að það átti að byrja kl 17 og vera þangað til 9 morguninn eftir. Ég, Rebecca og Sara ætluðum sko að taka hörkuna á þetta, mættum þangað uppúr miðnætti og var stefnan á að vera alla nóttina, þurftum að bíða í röð í ca klukkutíma og þegar var aaalveg að koma að okkur þá var hætt að selja miða, allt uppselt. Þarna fóru nokkrir bjórara og nokkrir espresso til spillis. En við enduðum þá bara á að taka 4 tíma langan göngutúr um Mílanó sem var bara hressandi líkamsrækt.
Helgina enduðum við svo á að horfa á Superbowl (amerískan fótbolta), sem var virkilega gaman því loksins nennti einhver að útskýra fyrir mér reglurnar. Ég að sjálfsögðu valdi rétta liðið til að halda með, Rebecca tapaði því veðmálinu og þarf að leika heimilislausa manneskju í hálftíma og betla pening. Allur pengurinn sem hún mun safna mun hún svo gefa til alvöru heimilislausrar manneskju.

Annars eru bara 2 tímar í afmælisdaginn minn og er ég á fullu að plana partý. Ykkur er öllum boðið en ég hreinlega efast um að einhver sjái sér fært að mæta. En aftur á móti er ég alltaf til í surprise heimsókn, partýið verður 19.febrúar :)

Í gærkvöldi barst tal okkar, Rebeccu og Söru (frá nýja sjálandi) um feminista. Ég sagði að ég væri svo langt frá því að vera feministi og þær byrjuðu strax að mótmæla. Þær sögðu að ég væri feminsti af því að :
1. Ég flutti til útlanda
2. ég ætla í háskóla
3. Ég hef ekki karlmann til að láta stjórna mér
4. Ég geri það sem mig langar að gera

Fyrirgefiði en finnst ykkur það voða feminista-legt? Ég komst að þeirri niðurstöðu að okkar samfélag, samfélag Íslendinga er bara allt allt öðruvísi. Það er nú útaf norminu ef einhver kona fer ekki í háskóla eða er ekki með vinnu, er það ekki? Amerískum karlmanni finnst honum ógnað ef hann hittir konu með menntun, margar konur kjósa að vera heimavinnandi, kjósa það að láta karlinn sjá fyrir sér. Íslenskar konur gera lítið af því en ekki get ég talið þær sem feminista.
Hvað finnst ykkur?

Annars eru 10 dagar í Kasabian, 11 dagar í afmælispartý og 16 dagar í Inter-Chelsea. Voðalega er febrúar fallegur mánuður!

Sunday, January 31, 2010

Janúar flaug í burtu

Ég er ekkert að grínast en það eru einhver álög á mér og bloggsíðum. Á yngri árum þoldi ég náttúrulega aldrei að vera á sama stað og bjó til svona milljón og eina bloggsíðu. En núna gaf bloggar.is öndina, mér var ekki ætlað að segja ykkur frá því hversu ótrúlega skemmtileg upplifun það var að fara á Inter-Milan fótboltaleikinn!
Veit ekki hvernig sé best að skrifa athugasemd en ætli það sé ekki hentugast að velja Name/URL, þið bara finnið út úr því :)
Á leikdegi peppuðum við, ég og Rebecca, okkur upp með því að hittast og fá okkur að borða
saman. Mættum mjög tímanlega við völlinn því við ætluðum að freista þess að reyna að hitta á leikmennina þegar þeir koma úr rútum sínum og labba inn á leikvanginn. Við löbbuðum í heilan hring um allt svæðið og enginn inngangur sjáanlegur, við erum með kenningu að þeir labbi inn í neðanjarðar göng í einhverja tugi metra fjarlægð. En þá var lítið annað í stöðunni en að leggja af stað í átt að sætum okkar sem tók okkur alveg ágætis tíma, sætin okkar voru staðsett aftan við markið og frekar ofarlega. Á leið okkar hittum við tvær ungar stelpur sem spurðu "fyrirgefið en hvar er miðasalan fyrir leikinn?", ég og Rebecca litum á hvora aðra og hugsuðum báðar "er þessi gella að grínast?".
Við bentum henni góðfúslega á það að líkur þess að hún gæti keypt sér miða tveim tímum fyrir
leik væru ca 0,1 % ef það næði því. Hún spurði hvort einhver væri til í að gefa henni miðan sinn í skiptum fyrir síma og satt best að segja held ég að enginn væri til í að gefa miðann sinn. Völlurinn var troðfullur og stemningin var ólýsanleg, staðsetningin á sætunum var alveg frábær til að sjá gang leiksins en ég gat því miður ekki dáðst að kálfunum og
lærunum á þeim eins vel og síðast.





Við vorum umkringdar algjörum bullum og við hoppuðum og skoppuðum og sungum og öskruðum eins og við fengjum borgað fyrir það. Mjög fyndið samt þegar ótrúlega reiðir strákar tóku sig til og gáfu fokk merkið þegar Milan menn löbbuðu inn á völlinn, eins og þeir séu e-ð að fara að sjá þetta! Ég missti mig samt aðeins í gleðinni og fagnaði þvílíkt þegar Beckham og Ronaldinho voru kynntir, fattaði ekki að ég var umkringd Inter bullum en ég var bara svo fjandi spennt að sjá þá live! Svo er það næsta á planinu að reyna að ná miðum á Inter-Chelsea, það væri bara einu númeri of gott!

Annars er allt ljómandi gott í fréttum, í gær fórum ég, Rebecca, Vala, Kristiina og Jasmine til Torino í smá túrista dagsferð. Ég byrjaði á því að sofa yfir mig og þurfti að fara útúr húsi á 5 mínútum sem hafði þær afleiðingar að ég fór með myndavél með engu batterí. Gott Ebba. En ég á núna svo ótrúlega myndarlegan iphone þannig ég gat náð í smá sönnunargögn að ég hafi virkilega farið. Torino er alveg ótrúlega falleg borg, hún er fræg fyrir það hvað allar göturnar eru skipulega gerðar, allar götur liggja í 90 gráðu horn á þá næstu, þetta er svona eins og taflborð. Allt mjög snyrtilegt og andrúmsloftið svo afslappað og þægilegt, mikið af litlum vintage búðum og búðum sem selja allskonar hluti, alveg svona fullkomin búð til að gramsa í. Fórum á virkilega athyglisvert egypskt safn sem hafði að geyma fullt af styttum, vösum, brotum úr veggjum frá því mörg þúsund árum fyrir Krist, sáum alvöru múmíur, virkilega alvöru dauðan kall sem hafði verið vafinn inn og geymdur. Ég varð ástfangin af táknununum þeirra sem þeir nota til að skrifa, núna ligg ég yfir þessu á netinu og les mér til um Egyptaland.
Þegar við komum heim frá Torino þá skelltum við okkur á djammið, sem var mjög gaman þar sem klúbburinn var stútfullur af Bandaríkjamönnum. Rebecca var þar náttúrulega á algjörum heimavelli og var hamingjan ein að geta spjallað við fullt fullt af fólki á djamminu.
Við stelpurnar erum búnar að vera að ræða mismunandi stefnumótamenningu og Íslendingar eru held ég alveg sér á báti, í Bandaríkjunum telst það gott stefnumót ef það er eins og einn koss.
Hér verð ég alltaf alveg þvílíkt hissa þegar strákar koma til manns á djamminu og spurja hvort þeir meiga bjóða manni út að borða. Ég í alvöru hugsa "ætlaru ekki að reyna að sofa hjá mér núna?", nei nei þetta eru herramenn þeir bjóða út að borða eða bjóða þér heim til þeirra í mat. Alvöru karlmenn hér á ferð!
Er núna að taka mig á í ræktinni og er orðinn fastagestur þarna kvölds og morgna og þegar maður er svona oft þarna þá getur maður ekki annað en eignast uppáhalds heita einkaþjálfara. Ég hljóma kannski rosalega grunnhygginn en ég get ekki séð e-ð afþví að stara pínu :) Svo er einn þeirra orðinn algjör félagi og ætlar að hjálpa mér í átakinu mínu, heitir þessu skemmtilega nafni Gregorio. Mér finnst alltaf jafn gaman að segja þetta nafn því ég legg ansi skemmtilega áherslu á fyrra o-ið. Gregoooorio, prófið þetta, er nefninlega lúmskt gaman. Ótrúlega gaman líka að spá í þessum nöfnum á strákunum hér, eins og Inga Dís orðaði það svo skemmtilega að þeir hljóma virkilega heitir bara við að heyra nöfnin. Antooonio, Alessandro, Fabio, Fabrizzio, Maaarco og reynið að lesa þetta allt með ítölskum hreim.

Annars verður að segjast eins og er að ég er orðin ansi þreytt á starfinu mínu, stelpan er alveg að missa sig í óþægðinni og er hún sennilega orðin rosalega spennt og stressuð fyrir nýja barninu sem mun mæta á svæðið í lok febrúar. Þar þarf ég að undirbúa mig vel, kaupa eyrnatappa og tilheyrandi svo ég geti nú náð þokkalega góðum nætursvafn. Get líka alveg viðurkennt það að ég er sjálf spennt að fá lítið kríli á heimilið. Börn eru alltaf voða krúttleg svona á meðan ég þarf ekki að hugsa um þau.
Stundum tekur Mariavittoria sig til og stappar í gólfið og labbar um alla íbúðina og segir annað hvort "SÍ SÍ SÍ SÍ SÍ SÍ" eða "NO NO NO NO" svona mismunandi eftir umræðuefni. Hún er alveg með þokkalega góða öskur rödd sem hún er ekkert að spara og eyðir mestum tíma sínum í að kvarta og setja upp svipi og segja manni reglulega að maður sé vitlaus og viti ekki neitt.
Hljómar alveg einstaklega skemmtilega ekki satt? En þetta er bætt upp með ferðalögum, fótboltaleikjum og tónleikum.

Annars styttist óðum í að ég verði gömul kona, 21 árs og er ég byrjuð að plana afmælið. Væri virkilega gaman að halda partýið í sporvagni sem keyrir með þig um alla borgina en ég er líka búin að sjá skemtilegan stað sem býður upp á partýhöld. Þarf að skoða þetta vel og vandlega þar sem maður á ekki oft afmæli í útlöndum!
Annars líður mér eins og ég sé bara alveg á leiðinni heim, búin að kaupa flugið heim í maí og finnst þetta allt bara að klárast, það verður vægast sagt blendnar tilfinningar að yfirgefa Ítalíu.
Læt þetta annars duga af fréttum í bili..
þangað til næst

Ebba Karen

Saturday, January 30, 2010

142 dagar á Ítalíu

Heil og sæl
Ég er stundum að heyra frá fólki að ég hafi alltof mikinn tíma og sé aldrei að gera neitt. Ég hef verið að velta þessu rosalega mikið fyrir mér núna síðustu daga. Ég bý í Mílanó, hér er margt að skoða og margt að gera en það verður aðeins að taka það með í reikninginn að allt kostar. Ég get ekki hagað mér þessa 9 mánuði sem ég er búsett hér eins og ég gerði í 10 daga á Rhodos. Hér bý ég og hér lifi ég. Heima myndi ég væntanlega fara í skólann/vinnu, æfingu og svo kannski stundum kíkja á rúntinn, sund eða bara slappa af heima.
Dagurinn minn hér felst í rækt um morguninn, skóli 11-1, vinna 5-8 og svo aftur rækt. Þarna inn á milli hef ég nægan tíma til að gera hitt og þetta en ég bara tími ekki og nenni ekki að fara í búðir, kaffihús eða á endalaus söfn.
Helgarnar eru tíminn til að gera e-ð og helgarnar fram að heimkomu munu fara í að kíkja í nágranna borgir og vonandi e-ð smá útúr landi.

Það getur alveg verið drep leiðinlegt að gera ekki neitt á daginn en það hefur ekkert bara galla. Ég hef verið að gera ýmislegt sem ég hef ekki gefið mér tíma til á Íslandi. Ég er búin að lesa 10 bækur, ég prjónaði mér trefil og eyrnaband og stefni á að prjóna meira, ég hef tíma til að taka fjarnám og læra ítölsku.


Það er samt alveg ósjálfrátt að þegar maður hefur svona mikinn tíma að maður hugsar heim og það er alveg staðreynd að ég hlakka mjög mikið til að koma heim. Ég myndi samt aldrei vilja skipta út þessari reynslu, þetta er alveg meiri háttar og ég er meira en til í það að flytja hingað út aftur, en þá ekki sem aupair.
Ekki nóg með það að ég læri nýtt tungumál og kynnist nýrri menningu þá er ég búin að víkka sjóndeildarhringinn gagnvart mat. Ýmislegt sem ég mundi hugsanlega neita heima fæ ég mig til að smakka hér, þau eru alltaf að koma með nýja osta og ýmislegt sem lítur hrikalega út en ég smakka samt. Bæði afþví ég er kurteis og það er ókurteisi að neita mat og líka því þetta er kannski e-ð sem ég get bara smakkað hér en ekki heima.
Svo er ég farin að geta drukkið bjór og rauðvín sem ég held að stelpurnar mínar séu virkilega ánægðar með, trúi ekki annað en að þær séu stoltar af mér núna.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað í andskotanum ég er að gera hér, ég er bara ensku kennari, við gerum heimavinnu og leikum okkur í 3 tíma á dag. En það er alveg á hreinu að mín dvöl er að skila sér. Foreldarnir fóru á fund með kennurunum og hún er lang efst í enskunni, alveg yfirburðar best í bekknum, þrátt fyrir að hegðunin mætti vera betri. Það er svo gaman að fá svona fréttir, að vita að maður er að gera e-ð gott og einhver partur af þessari visku sem ég bý yfir (hehe) skili sér.

Nýja árið er strax farið vel af stað, er búin að fara í eina dagsferð til Bergamo, kaupa mér miða á Inter-AC og á tónleika með Kasabian. Erum svo með plön að fara til Torino, Florence, Pisa, Rimini, Garda Vatns og ef möguleiki er að keyra upp til Sviss. Það er ótrúlegt hvað ég er með mikið af fallegum stöð bara í næsta nágrenni, það tekur ekki nema klukkutíma að keyra til Sviss og væri það algjör draumur að komast þangað.

En ég læt þetta duga af fréttum í bili
Kem með eitt sjóðandi þegar ég er búin á deitinu mínu með Ronaldinho, Beckham, Eto'o, Mourinho og Pato :)
love, Ebba Karen

nýtt ár, nýjir tímar

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og vandamenn og takk kærlega fyrir það gamla. Árið 2009 var sennilega eitt það besta hingað til. Við vinkonurnar fórum hreinlega á kostum og það er bara hlægilegt að rifja upp alla vitleysuna sem við gerðum síðasta árið. Ætla að drita niður nettu yfirliti frá síðasta ári..
-Ég byrjaði síðustu önnina mína í Menntaskólanum á Akureyri
-Fór í nokkrar ansi eftirminnilegar ferðir með stelpunum til Reykjavíkur
-Varð tvítug og þar með gjaldgeng í ríkið
-Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana
-Dimmiteraði
-Útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri (besti dagur ársins)
-LungA
-Fiskidagurinn
og svo sennilega það sem mér finnst skemmtilegast að segja frá er það að hafa tekið mig til og flutt til Ítalíu.
Það er ómetanlegt að læra nýtt tungumál, kynnast nýjum hefðum og vera partur af öðruvísi menningu. Það er ekki alveg það léttasta í heiminum að búa inn á ókunnugri fjölskyldu en ég er ótrúlega heppin með fjölskyldu sem er meira en til í það að taka mig inn í fjölskylduna og láta sem ég er partur af þeim. Það eru ekki nærri því allir aupairar sem geta sagt það. Sumar stelpurnar sem ég þekki eru að lenda í því að þeim sé bannað að borða kvöldmat með fjölskyldunni því þær eru að trufla dýrmætan fjölskyldutíma eða banna þeim að horfa á sjónvarp eða eitthvað í þá áttina.

Ég er komin með nokkur markmið fyrir árið 2010, t.d það að leggja mig meira fram við að tala ítölskuna, koma mér í gott form aftur svo kannski maður verði gjaldgengur á hlaupabrautina og ég ætla að rifja upp kynni mín við flautuna. Held að jákvæðni sé líka ofarlega á listanum, hef komist að því að það borgar sig ekki að vera neikvæður!

En frá því ég bloggaði síðast er margt skemmtilegt búið að gerast. Rebecca vinkona mín þurfti að taka ACT próf og ég hjálpaði henni að læra undir stærðfræðihlutann, svo þegar við komumst að því að próftöku staður var svolítið fyrir utan Mílanó og það þurfti að keyra þangað kom smá babb í bátinn. Rebecca kann ekki að keyra beinskiptan bíl, sem var því miður eini bíllin í boði. Ég var ekkert nema góðmennskan og bauðst til að skutla henni sem var ekkert lítið stressandi, eins og ég hef sagt áður þá er umferðin hérna algjör geðveiki. Ég sit samt hér að skrifa bloggið svo ég komst lifandi í gegnum þetta, ég er samt ekki með það á dagskránni að keyra aftur!

Jólunum og áramótunum eyddi ég á Spáni með Önnu, Villa og Bjarna. Ferðlagið þangað var náttúrulega bara e-ð grín. Ég lenti 10 tímum seinna en áætlað var, plús það að farangurinn minn týndist. Toppurinn að mæta á aðfangadagsnóttu farangurslaus á Spáni og hitta Önnu sína í fyrsta skipti í 4 mánuði. Ég grét, svo einfalt er það!
Ekki gat ég verið í sveittum og skítugum fötum á aðfangadagskvöld svo ég hljóp inn í Zöru keypti mér kjól, sokkabuxur og bol á svo sannarlega met tíma.
En þessi tími sem ég var á Spáni var ótrúlega skemmtilegur, að geta talað íslensku stanslaust í 12 daga var dramur. Við vorum algjörir túristar og skoðuðum byggingar og fórum á söfn.
Kl 6 á aðfangadagskvöld hentumst við inn á Írskan Pöbb og fengum okkur samloku og vatn og á gamlárs borðuðum við Dominos Pizzu. En það var bara gaman að prófa að upplifa jólin svolítið öðruvísi, satt best að segja fann ég ekki fyrir því að ég væri að missa af einhverju heima. Maður tók ekki einu sinni eftir því að það væri aðfangadagur.
Mig langar samt alveg að leggja fram tillögu við móður mína, að hún geri möndlugraut þegar ég kem heim. plís plís plís?

Á fimmtudaginn síðastliðinn mætti ég í fyrsta tímann minn í Leveli 2 í ítölskunáminu, bekkjarfélagar mínir eru konur á þrítugsaldri sem hafa búið hér í allaveganna ár og tala líka svona fluent! Þannig fyrsta tímann sat ég og sagði ekki orð og skildi heldur ekki orð, semsagt alveg hreint frábærar 2 klukkustundir. En þetta er að sjálfsögðu ekkert nema hvetjandi, ég neita að koma heim og geta ekki myndað einhverja fallega setningu eða frásögn handa ykkur klakabúum!

Það er frekar fyndið að vera búsettur á Ítalíu og fá snjó. Dagana fyrir jól þá snjóaði eins og ég hefði borgað sérstaklega fyrir það. Maður setur ekki alveg samasem merki á milli lands nær miðbaug og svo snjór, en þetta er vissulega útaf því ég bý ca klukkutíma frá ölpunum. Svo var að snjóa á ýmsum undarlegum stöðum heyrði ég.

Í haust þá hitti ég stelpu á djamminu sem bauð mér í afmælið sitt 3 dögum seinna, ég sló til og ákvað að mæta, í dag er þessi stelpa ein besta vinkona mín hér úti.
Aupair lífið er mikið þannig að við erum einhverjar stelpur að hittast og einhver kemur með nýja aupairvinkonu svo maður er oft að hitta ný andlit og djamma með stelpum sem maður hitti fyrir 5 mínútum síðan. Í gær áttum við Rebecca deit með stelpu sem við höfðum hitt á djamminu fyrir jól, hún tók með sér 3 vinkonur sem ég rétt kannaðist við og Rebecca var með bandaríska vinkonu sína. Þannig ágætis hópur af stelpum sem svona tæplega þekktist.
Til að toppa þetta allt þá bauð ég stelpu að koma með sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Málið er að þessar stelpur vildu "predrink" á McDonalds, komu með sitt eigið áfengi og sulluðu því í McDonalds gosið, ekkert sérstaklega classy en alveg fjandi ódýrt. Ég fer í röðina til að fá mér vatnsglas og sé þar stelpu að reyna að tala við afgreiðslumanninn og spurja um diskótek, hún talaði enga ítölsku, tæplega ensku og afgreiðslumaðurinn einungis ítölsku. Ég spyr hana hvort ég geti aðstoðað og hún segist vera að leita að einhverjum klúbb, engum sérstökum bara einhverjum. Ég útskýri fyrir henni staðsetningu á klúbb sem við erum að fara á og þá segir hún "já takk kærlega, vinkona mín sem ég er að heimsækja er að vinna en ég ákvað samt að fara út þótt ég sé ein"!
Góðmennið Ebba gat náttúrulega ekki látið stelpuna fara eina á djammið svo ég bauð henni bara með okkur. Við erum að tala um það að ég bjargaði kvöldinu hennar, hún skemmti sér held ég þrusu vel og sagði takk svona milljón og einu sinni (enda varð hún alveg vel drukkin).
Svo .. góðverk á árinu 2010 - CHECK!

En ég læt þetta duga af fréttum í bili.
ciao ciao