Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og vandamenn og takk kærlega fyrir það gamla. Árið 2009 var sennilega eitt það besta hingað til. Við vinkonurnar fórum hreinlega á kostum og það er bara hlægilegt að rifja upp alla vitleysuna sem við gerðum síðasta árið. Ætla að drita niður nettu yfirliti frá síðasta ári..
-Ég byrjaði síðustu önnina mína í Menntaskólanum á Akureyri
-Fór í nokkrar ansi eftirminnilegar ferðir með stelpunum til Reykjavíkur
-Varð tvítug og þar með gjaldgeng í ríkið
-Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana
-Dimmiteraði
-Útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri (besti dagur ársins)
-LungA
-Fiskidagurinn
og svo sennilega það sem mér finnst skemmtilegast að segja frá er það að hafa tekið mig til og flutt til Ítalíu.
Það er ómetanlegt að læra nýtt tungumál, kynnast nýjum hefðum og vera partur af öðruvísi menningu. Það er ekki alveg það léttasta í heiminum að búa inn á ókunnugri fjölskyldu en ég er ótrúlega heppin með fjölskyldu sem er meira en til í það að taka mig inn í fjölskylduna og láta sem ég er partur af þeim. Það eru ekki nærri því allir aupairar sem geta sagt það. Sumar stelpurnar sem ég þekki eru að lenda í því að þeim sé bannað að borða kvöldmat með fjölskyldunni því þær eru að trufla dýrmætan fjölskyldutíma eða banna þeim að horfa á sjónvarp eða eitthvað í þá áttina.
Ég er komin með nokkur markmið fyrir árið 2010, t.d það að leggja mig meira fram við að tala ítölskuna, koma mér í gott form aftur svo kannski maður verði gjaldgengur á hlaupabrautina og ég ætla að rifja upp kynni mín við flautuna. Held að jákvæðni sé líka ofarlega á listanum, hef komist að því að það borgar sig ekki að vera neikvæður!
En frá því ég bloggaði síðast er margt skemmtilegt búið að gerast. Rebecca vinkona mín þurfti að taka ACT próf og ég hjálpaði henni að læra undir stærðfræðihlutann, svo þegar við komumst að því að próftöku staður var svolítið fyrir utan Mílanó og það þurfti að keyra þangað kom smá babb í bátinn. Rebecca kann ekki að keyra beinskiptan bíl, sem var því miður eini bíllin í boði. Ég var ekkert nema góðmennskan og bauðst til að skutla henni sem var ekkert lítið stressandi, eins og ég hef sagt áður þá er umferðin hérna algjör geðveiki. Ég sit samt hér að skrifa bloggið svo ég komst lifandi í gegnum þetta, ég er samt ekki með það á dagskránni að keyra aftur!
Jólunum og áramótunum eyddi ég á Spáni með Önnu, Villa og Bjarna. Ferðlagið þangað var náttúrulega bara e-ð grín. Ég lenti 10 tímum seinna en áætlað var, plús það að farangurinn minn týndist. Toppurinn að mæta á aðfangadagsnóttu farangurslaus á Spáni og hitta Önnu sína í fyrsta skipti í 4 mánuði. Ég grét, svo einfalt er það!
Ekki gat ég verið í sveittum og skítugum fötum á aðfangadagskvöld svo ég hljóp inn í Zöru keypti mér kjól, sokkabuxur og bol á svo sannarlega met tíma.
En þessi tími sem ég var á Spáni var ótrúlega skemmtilegur, að geta talað íslensku stanslaust í 12 daga var dramur. Við vorum algjörir túristar og skoðuðum byggingar og fórum á söfn.
Kl 6 á aðfangadagskvöld hentumst við inn á Írskan Pöbb og fengum okkur samloku og vatn og á gamlárs borðuðum við Dominos Pizzu. En það var bara gaman að prófa að upplifa jólin svolítið öðruvísi, satt best að segja fann ég ekki fyrir því að ég væri að missa af einhverju heima. Maður tók ekki einu sinni eftir því að það væri aðfangadagur.
Mig langar samt alveg að leggja fram tillögu við móður mína, að hún geri möndlugraut þegar ég kem heim. plís plís plís?
Á fimmtudaginn síðastliðinn mætti ég í fyrsta tímann minn í Leveli 2 í ítölskunáminu, bekkjarfélagar mínir eru konur á þrítugsaldri sem hafa búið hér í allaveganna ár og tala líka svona fluent! Þannig fyrsta tímann sat ég og sagði ekki orð og skildi heldur ekki orð, semsagt alveg hreint frábærar 2 klukkustundir. En þetta er að sjálfsögðu ekkert nema hvetjandi, ég neita að koma heim og geta ekki myndað einhverja fallega setningu eða frásögn handa ykkur klakabúum!
Það er frekar fyndið að vera búsettur á Ítalíu og fá snjó. Dagana fyrir jól þá snjóaði eins og ég hefði borgað sérstaklega fyrir það. Maður setur ekki alveg samasem merki á milli lands nær miðbaug og svo snjór, en þetta er vissulega útaf því ég bý ca klukkutíma frá ölpunum. Svo var að snjóa á ýmsum undarlegum stöðum heyrði ég.
Í haust þá hitti ég stelpu á djamminu sem bauð mér í afmælið sitt 3 dögum seinna, ég sló til og ákvað að mæta, í dag er þessi stelpa ein besta vinkona mín hér úti.
Aupair lífið er mikið þannig að við erum einhverjar stelpur að hittast og einhver kemur með nýja aupairvinkonu svo maður er oft að hitta ný andlit og djamma með stelpum sem maður hitti fyrir 5 mínútum síðan. Í gær áttum við Rebecca deit með stelpu sem við höfðum hitt á djamminu fyrir jól, hún tók með sér 3 vinkonur sem ég rétt kannaðist við og Rebecca var með bandaríska vinkonu sína. Þannig ágætis hópur af stelpum sem svona tæplega þekktist.
Til að toppa þetta allt þá bauð ég stelpu að koma með sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Málið er að þessar stelpur vildu "predrink" á McDonalds, komu með sitt eigið áfengi og sulluðu því í McDonalds gosið, ekkert sérstaklega classy en alveg fjandi ódýrt. Ég fer í röðina til að fá mér vatnsglas og sé þar stelpu að reyna að tala við afgreiðslumanninn og spurja um diskótek, hún talaði enga ítölsku, tæplega ensku og afgreiðslumaðurinn einungis ítölsku. Ég spyr hana hvort ég geti aðstoðað og hún segist vera að leita að einhverjum klúbb, engum sérstökum bara einhverjum. Ég útskýri fyrir henni staðsetningu á klúbb sem við erum að fara á og þá segir hún "já takk kærlega, vinkona mín sem ég er að heimsækja er að vinna en ég ákvað samt að fara út þótt ég sé ein"!
Góðmennið Ebba gat náttúrulega ekki látið stelpuna fara eina á djammið svo ég bauð henni bara með okkur. Við erum að tala um það að ég bjargaði kvöldinu hennar, hún skemmti sér held ég þrusu vel og sagði takk svona milljón og einu sinni (enda varð hún alveg vel drukkin).
Svo .. góðverk á árinu 2010 - CHECK!
En ég læt þetta duga af fréttum í bili.
ciao ciao
No comments:
Post a Comment