Það er verða komið að leikslokum hér á Ítalíu og þá get ég ekki annað en horft til baka og reynt að koma með einhverja ágætis samantekt á lífi mínu hér. Flestir öfunda mig af þessari lífsreynslu og satt best að segja öfunda ég sjálfa mig, ef það er þá hægt. Mér bauðst þetta ótrúlega tækifæri að flytja til Ítalíu, búa hjá ítalskri fjölskyldu og starfa sem enskukennari og stóra systir hjá 3 mannafjölskyldu (núna fjögurra manna reyndar) með þernu, hund og 5 fiska. Ég var nú á báðum áttum þar sem ég er ekki þekkt fyrir að vera aðdáandi barna og hef ekki mikið unnið með börnum í gegnum tíðina en þar sem ég var stútfull af útþrá og ævintýra þrá og þráði ekkert heitar en að yfirgefa Akureyri og Ísland að þá ákvað ég að slá til. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun.
Mílanó er dýr borg, höfuðborg tískunnar. Það tók mig sinn tíma að komast inní mitt rétta umhverfi hér, eiginlega aðeins of seint því ég er loksins búin að læra að leita að réttu stöðunum, klúbbunum, kaffihúsunum og atburðum þar sem maður þarf ekki að borga milljón og eina fyrir bjórglas. Ég var oft að tala um hvað ítalir væru ekki mínar týpur, ofurgelaðir súkkulaði strákar í bleikum skyrtum sem eru girtar ofan í buxnastrengin, það eru bara týpurnar sem voru að hanga á sömu skemmtistöðunum sem ég fór á. Núna fann ég hinsvegar heitustu ítalina en það er að sjálfsögðu þegar ég er við það að fara. Fjölskyldan hér úti hafði einmitt orð á því að ég myndi sennilegast finna mér kærasta þegar ég væri að fara heim.
Ég er búin að sjá og gera hluti sem ég gat ekki ímyndað mér að einhverntímann yrðu að raunveruleika og hvað þá svona ótrúlega skemmtilegir. Ég er búin að fara á 3 stóra fótboltaleiki á San Siro, sjá Chelsea spila (og vera líka svona ótrúlega nálægt elskunni minni honum Lampard) fara á þrenna tónleika og ferðast um Ítalíu. Svona ofan á þetta allt saman þá held ég að ég sé búin að breytast frekar mikið, ég segi og geri hluti allt öðruvísi en áður, tækla vandamál allt öðruvísi en áður og viðhorf mitt hefur breyst til hins betra. Það er svo ótrúlega skrýtið að hafa eignast svona góðar vinkonur hérna úti og ég hef ekki eina einustu hugmynd ef ég mun einhverntímann sjá þær aftur. Var að kveðja eina um daginn sem var sjálf að fara heim og samtalið var einhvernveginn svona:
Ég: „ooo þetta er búið að vera svo gaman hérna úti“
Hún: „Já alveg sammála þér, skrýtið að þetta sé búið“
Ég: „Gangi þér vel á ferðalaginu heim, það var ótrúlega gaman að kynnast þér“
Hún: „Takk fyrir og sömuleiðis, hafðu það gott í lífinu“
Kviss bamm búmm. Ég mun sennilega aldrei sjá hana aftur! Þetta er eiginlega bara hálf vandræðalegt.
Þótt þetta hljómi allt voða frábært og geðveikt, þá hafa líka verið hundleiðinlegir tímar hér. Veðrið hér á tímabili var náttúrulega alveg fáranlega ömurlegt, með slyddu í marga daga í röð og grámyglu og veseni. Ég hefði líka alltof mikinn tíma fyrir sjálfa mig og horfði sennilega á 100 bíómyndir og allar sex and the city seríurnar og borðaði með því. Var löt í ræktinni og datt úr öllu formi en ég meina, maður deyr nú ekki á því að vera ekki fit í nokkra mánuði ! Við tekur bara skemmtilegar æfingar þegar ég kem heim og satt best að segja, þá get ég ekki beðið! Er svo tilbúin í það að láta lífið á hlaupabrautinni!
Aupair er ódýrasta leiðin til að búa erlendis en líka mjög erfið. Fyrir alla þá sem hafa áhuga á börnum og að vinna með börnum þá segi ég bara GO FOR IT ef ekki, þá er þetta sennilega ekki rétti vettvangurinn. Allir þeir sem eru tilbúnir að prófa eitthvað nýtt, kynnast nýrri menningu, siðum og venjum, tilbúnir að breyta sínum eigin venjum og siðum þegar búið er hjá nýrri fjölskyldu ættu að skella sér. Svo er náttúrulega alltaf hægt að pakka öllu sínu dóti niður, flytja erlendis og fá sér vinnu eða fara í skóla. Það eina sem ég er að reyna að segja er að allir ættu að prófa að búa erlendis!
Ætla svo að enda þetta blogg á nokkrum vel völdum myndum frá dvöl minni hér á Ítalíu. Takk allir fyrir að fylgjast með mér og hafa áhuga á því sem ég hef verið að gera. Þetta mun sennilega verða mitt síðasta blogg héðan frá Ítalíu en endilega haldið áfram að lesa um ævintýri mín í sumar og næsta haust. Aldrei að vita nema að ég leggi af stað til annars lands og geri allt vitlaust þar líka!

