Já, líf mitt er að komast í nokkurnveginn fastar skorður hér í Mílanó. Stelpan er byrjuð í skólanum og ég hef því tíma fyrir sjálfa mig frá því ég vakna þangað til á 4 á daginn. Hingað til hef ég nýtt þann tíma í að fara í ræktina, í búðir, njóta sólar (eða bleytu) eða í ræktina. Hljómar allt saman einstaklega spennandi ekki satt?
Málið er að þetta er alveg mjög ljúft og verður enn betra þegar ég byrja svo í skólanum líka, en ég tel einmitt niður dagana þangað til. Það eru tveir tímar á dag þrisvar sinnum í viku og ég er orðin alveg skuggalega spennt að læra þetta tungumál, ég er nú samt orðin nokkuð sleip, næ oftast einhverju samhengi og get gubbað útúr mér nokkrum vel völdum orðum. Sjaldnast þó í heilli setningu sem meikar sens en að bjóða góðan dag og góða nótt er agalegt sport hjá mér!
Ég er líka orðin nokkuð góð í að rata, eða svona meira að ég þarf ekki að hugsa eins mikið þegar ég tek strætó eða metro eða sporvagn. Ef ég þarf að fara eitthvert, sem er oftast niðrí center þá stekk ég bara út á stoppistöð og tek strætó. Án þess að hugsa! mjög ljúft, er næstum eins og innfædd hérna heh!
Er einmitt loksins komin í rækt og það er bara að bjarga lífi mínu. Það má samt með sanni segja að ég sé "to big for the gym" og má túlka það á tvo vegu. Ég er sennilega með þeim breiðari þarna inni þar sem hver einasta gella er 0% fita, og svo eru ekki nógu þung lóð þarna fyrir mig. Vandræðalegt eða? En það er í lagi, þetta er glæný stöð og þau eru að fá fleiri lóð og fleiri tæki heh.
Ítalir eru svo fyndnir, ég næ bara ekki uppí það.
Í fyrsta lagi: Þeir sofa bara með lak, því það er ennþá svo heitt. Hafið þið ekki farið á hótel á sólarströnd og það er alltaf búið að pikkfesta lakið svo maður þarf losa það svona undan dýnunni til að komast undir? Svoleiðis er þetta á mínu heimili og ég er alveg glötuð í því að búa um rúmið með þetta drasl. Lendi líka vandræðalega oft í því að vakna um miðja nótt og vera hálf föst í lakinu sem er fast við dýnuna.
Í öðru lagi: Þetta thing með að kyssa einu sinni á hvora á kinn þegar það er verið að kveðja, það er ekki alveg minn tebolli. Aupair stelpurnar sem ég hef kynnst hérna þær gera þetta allar og það fer alveg lúmskt í taugarnar á mér hah. Ég er ekki alveg týpan í þessar atlotur á almannafæri.
Lenti samt í því albesta í dag þegar einkaþjálfarinn var að kveðja mig, ég var alveg löööðrandi sveitt en hún tók samt utan um mig og kyssti mig einu sinni á hvora kinn.
í þriðja lagi: Það eru allir þessir óteljandi sleikar sem ég hef séð hérna, það eru allir í sleik, alltaf. Í metro, í strætó, í búðinni, í strætó skýlinu. Og þetta eru ekkert venjulegir sleikar, þetta er bara SSS (SúperSkemmtistaðaSleikur).
í fjórða lagi: Umferðin! Hér hefur enginn þolinmæði, ef þú ert ekki helst farinn yfir á gulu þá er flautað. Ef bíllinn á undan þarf að stoppa fyrir gangandi vegfaranda (nota bene á GANGBRAUT) þá er flautað. Ekki nóg með það að göturnar hérna eru þær ósléttustu í bransanum. Fæstar þeirra malbikaðar, alltaf svona múrsteina dæmi, eða sporbrautir útum allt sem er verið að keyra ofan á. Íslendingar að kvarta yfir lélegum götum, pff Ísland hvað?!
En svona svo ég sé ekki bara endalaust að gagnrýna þessar elskur þá hafa þeir auðvitað sýnar jákvæðu hliðar. Það eru allir kurteisir, biðjast afsökunar, bjóða góðan daginn, eru til í að hjálpa manni og svo framvegis. Sumir eru reyndar aðeins of nice. Var á röltinu um daginn og mætti manni á aldur við pabba minn, sem stoppaði mig og spurði hvort ég byggi hér og hvort ég væri til í að fara á deit með honum. What the hell? Aldrei myndi maður lenda í þessu á íslandi.
Og að sjálfsögðu það allra jákvæðasta við Mílanó eru allar búðirnar hérna. Önnurhver búð er fatabúð, önnur hver búð af því er skóbúð! Ofan á þetta allt saman eru allir götusalarnir með ótrúlega mikið af flottum skóm á svona 5 evrur! Og ekki má gleyma öllu gómsætu kaffihúsunum hérna, alltaf opin kl 8 á morgnana með girnilegu brauðunum sínum og croissant.
En nóg af fréttum í bili
þangað til næst
Ebba Karen
No comments:
Post a Comment