Saturday, January 30, 2010

kalt á Ítalíu

Ítalía er formlega orðin köld. Hér er kápan tekin upp, klútur um hálsinn og ég þarf að fara að fara að fjáfesta í húfu og vettlingum. Get ekki sagt að ég taki þessu veðri fagnandi þar sem ég eiginlega missti af góða veðrinu þegar það var hér.
Hversu slæmt er það að hafa verið í einn og hálfan mánuð í 25 stiga hita, sól og hafa fengið í mesta lagi 3 nýjar freknur. En Milanó er að mínu mati ekki "tan borg", það er varla grænn blettur hér nema almenningsgarður troðfullur af ferðamönnum. Langar ekkert að tana þar sem kínverjar með grímur útaf svínaflensunni eru að taka myndir af mér.

Er búin að vera í skóla núna í 3 vikur þar sem ég samviskusamlega stunda nám í ítölsku. Mæti þrisvar í viku, tvo tíma í senn og er alveg voðalega fínt að hafa e-ð að gera á daginn. En málið er að í þessa tvo tíma þá skil ég kannski um það bil 15 mínútur. Kennarinn talar bara ítölsku, og talar mikið, svo ef við sýnum engin viðbrögð þá spyr hún "capito?" og við að sjálfögðu segjum nei, þá reynir hún að útskýra betur en bara á ítölsku. Þannig eftir þessa tvo tíma þá er maður kominn með vægan hausverk og langar helst heim að leggja sig. En þetta skilar sér, orðin festast smám saman í minninu og áður en ég veit af verð ég altalandi. Núna skil ég ótrúlega mikið en svara oftast á ensku eða í tveggja orða setningum á ítölsku. Svona utan við það að ég held að það sé málfræðilega rangt að hafa bara tvo orð í setningu.

Í undanförnum bloggum hef ég reynt að setja upp mynd af lífi mínu hér, reyni að segja frá öllu sem ég sé og heyri og hvernig upplifun það er.
En mér finnst ég ætti líka að segja ykkur hvernig tilfinning það er að vera hér. Flesta daga er ég alveg himinlifandi að hafa drifið mig af stað og flutt erlendis, þetta er alveg mögnuð upplifun og ég kem alveg þvílíkt veraldarvön heim. En það koma alveg dagar þar sem ég efast um ákvörðun mína, það er mjög erfitt að hafa engan og búa inná fólki sem maður varla þekkir. Undanfarna daga hef ég lítið verið að fara út, tók þá ákvörðun að spara pening og minnka næturlífið aðeins. En því fylgir auðvitað að ég er meira ein á kvöldin og hitti fólk sjaldnar og þá fer maður að hugsa heim, þá koma efasemdirnar.
Er samt ekki að segja að ég sé að gefast upp, þetta er alls ekkert þannig, en þetta hefur hljómar hingað til sem algjör sældarlíf og vildi ég bara segja frá því að efasemdir eiga sér stað.
Dreymdi um daginn að ég hafi ákveðið að fara heim og um leið og ég var komin heim og settist við eldhús borðið heima í sveitinni þá sá ég strax eftir því að hafa gefist upp.
Ég er yfirmig ánægð að vera stödd hér núna og ég veit að þetta tímabil er bara gott fyrir mig. Fínt að flytja burt, kynnast nýju fólki og nýrri menningu og hlaða batteríin fyrir háskólanám næsta haust.

Var að lesa eldgamalt blogg sem ég skrifaði á annarri bloggsíðu, þar var ég að skrifa um hvað ég væri með mikla útþrá og hvað ég þráði að komast eitthvert til útlandi að upplifa e-ð nýtt. Satt best að segja, á þeim tímapunkti sem ég skrifaði þetta blogg, þá bjóst ég alls ekki við því að ég myndi enda í Mílanó sem barnapía.
Kannski líka þar sem ég hef sjaldnast verið þekkt fyrir að vera barna dýrkandi og hafa margir verið undrandi á þessari ákvörðun minni. En ég sé ekki eftir þessu og ég mun bara kunna betur að meta Ísland þegar ég kem aftur heim. Þið þarna úti, drífið ykkur út að prófa e-ð nýtt. Það er geðveikt!

En aftur að ítalskri menningu. Sjónvarpsefnið, ó elsku sjónvarpsefni. Ítalir ættu skilið óskarsverðlaun. Auglýsingarnar eru alveg kostulegar og er ein í alveg sérstöku uppáhaldi. 4 framhaldsskóla krakkar koma hoppandi útum dyrnar á skólanum, yfir sig ánægð, einn strákur og ein stelpa detta í smá sleik (vá kemur á óvart) og leiðast svo í burtu. Hér er verið að auglýsa símafyrirtæki.
Þau eru líka með sjónvarpsþátt sem er samblanda af Bachelorette, So you think you can dance og American Idol. Ein gella, fullt af gaurum og þeir eru alltaf að syngja og dansa. Dómarar dæma og segja stelpunni sína skoðun og hún metur svo það sem dómararnir segja um dans og söng frammistöðu þeirra og notar það til að hjálpa sér að velja hinn eina rétta.
Og ég sem hélt að Bachelorette væri sick þáttur.

Eitt sem ég gleymdi að nefna síðast. Á hverjum degi labba ég framhjá kirkju.
Kirkjurnar hér eru ekki mikilfenglegar og girtar af eða byggingar sem maður tekur eftir. Oftast eru þetta bara venjuleg hús, kannski aðeins stærri en hin, en falla bara inní umhverfið. Kirkjan sem ég labba framhjá er alveg upp við aðalumferðargötuna og er bara næstum á gangstéttinni. Á mínu tímabili hér hef ég labbað í gegnum (bókstaflega) messur, jarðafarir og brúðkaup. Það er frekar sérstakt að vera að labba í sínu mesta sakleysi í ræktina eða í búðir og maður þarf svona að sviga framhjá fólkinu í kringum líkbílinn eða gestunum að kasta hrísgrjónum yfir brúðhjónin. Næst ætla ég að elta gestina í veisluna og fá kökur!

En svona að tilkynningahliðinni.
Ég hef ákveðið að koma ekki til Íslands um jólin, ég held til Spánar þann 23.des og mun ég eyða jólunum með Herrera systkinunum. Ég verð að segja að ég hlakka alveg skuggalega mikið til, verður skrýtið að eyða ekki jólunum með fjölskyldunni, en þetta verður bara skemmtileg upplifun.

enough for now...
þangað til næst

xoxo

No comments: