Það sem er svo skemmtilega öðruvísi við að búa hér er það að ég labba allt, tek metró/strætó og labba oft dágóðar vegalengdir og þá fylgir að þurfa að nota regnhlíf þegar það rignir. Regnhlíf er bara mér hálf óskiljanlegt fyrirbæri, ég hef aldrei vanist að nota regnhlíf svo ég er ekki alveg með notkunina á hreinu. Ég er alltaf næstum því búin að flækja mig í ljósastaurum, flækjast í næstu regnhlíf við hliðina eða (og það besta) að detta um hana þegar hún er lokuð.
Lenti í hrikalega vandræðalegu atviki um daginn, var búin að loka henni og var á leið inní sporvagn þegar ég hálfgert hryn inní sporvagninn og datt svona næstum því í kjöltuna á fjallmyndarlegum ítölskum strák. Þetta virkaði því miður ekki sem pikk up lína svo ég roðnaði sennilega meira en ég hef nokkurntímann roðnað og kom mér þægilega fyrir aftast í sporvagninum.
Annað sem ég er enn að venjast og það er að hafa þernu inn á heimilinu. Málin standa nefninlega svo að þernan sem við vorum með, hún Sharmela, er hætt og við komin með nýja í staðin. Þá áttaði ég mig á því hvað þernur eru bara algjört núll og nix fyrir þessu fólki, hún er búin að búa inná þeim í 6 mánuði og svo hættir hún og þá er bara sagt "ciao" og henni næstum hent út. Mér líkaði mjög vel við hana og við gátum spjallað tímunum saman og hún var orðin vinkona mín. Svo kom fyrir 2 dögum hún Fanny frá Filippseyjum, sem tekur starfi sínu mjög alvarlega því núna þarf ég ekki einu sinni að hella vatninu í glasið mitt! Mamma þú átt erfitt verk fyrir höndum þegar ég kem heim !
En í öllu þessu standi þegar Sharmela var að hætta og Fanny að byrja þá fékk ég loksins á hreint hvað starf mitt hér er. Er búin að vera í einhverjum vafa þar sem þau hafa tekið upp á því að taka stelpuna með sér í vinnuna ef þernan fór veik heim, ég stóð eftir og svona "hvað í fjandanum er ég eiginlega að gera hér".
En í starfi þernunnar felst: Fyrst að hugsa um stelpuna og svo þrífa húsið. Þannig tæknilega séð er ég bara nýr fjölskyldumeðlimur sem þarf að tala ensku og hjálpa stelpunni með ensku heimavinnunna.
Um daginn má segja að ég hafi átt ansi viðburðarríkan dag, ég og Rebecca áttum að hittast kl 12 hjá Duomo sem varð svolítið ruglingslegt þar sem klukkunni var breytt og við fórum aftur um 1 klukkustund. Eftir smá ruglingslegar mínútur þá fór ég niður á Duomo (dómkirkjan) og þar var bókstaflega allt stappað af fólki. Þá var víst einhver minningarathöfn fyrir einhvern mann sem var verið að taka í dýrlingatölu og ég er ekki frá því nema að páfinn hafi verið á staðnum! Sá dauðakallinn í glerkistu og fullt af köllum með fjöðurhatta.
Á eftir þessu lentum við fyrir algjöra tilviljun á pasta hátið, Barilla pastað var með hátið og þar voru fjölmargir básar með mismunandi pastaréttum. Það er alveg klárt mál að ítalir elska pastað sitt. Skelltum okkur svo í einn almenningsgarð þar sem við hittum svertingja að slá á bongótrommur, dópista að reyna að syngja og spila á gítar og svertingja bera á ofan að spila körfubolta. Og svo til að enda góðan dag þá sáum við stelpur sýna Riverdance sem var sennilega uppáhaldið mitt þegar ég var yngri, fékk alltaf lánaða spólu hjá Höddu frænku og gat horft á hana tímunum saman.
Ég verð bara að segja það að ég er nokkuð viss um að ég myndi aldrei lenda í þessu á Íslandi!
En svona að skólamálum þá var ég næstum því búin að hætta í ítölskuskólanum mínum í gær. Ég öskraði innan með mér að þessi "helvítis skóli gæti bara farið til fjandans og ég væri að sóa peningunum mínum".
Málið er að kennarinn talar bara ítölsku, hún kann ensku en reynir með fremsta megni að nota ekki ensku. Svo í gær var hún að spurja mig að einhverju sem ég skildi bara ekki og ég sagði við hana voðalega kurteislega á ensku að ég gæti bara ómögulega skilið það sem hún væri að segja þá flissaði hún svona nett og hélt bara áfram að babbla á ítölsku. Eftir nokkrar tilraunir mínar í að fá hana til að útskýra þá flissaði hún bara meira og snéri sér að næsta nemanda. Seriously þá var ég alveg að missa þolinmæðina og langaði bara að slá hana utanundir. En sem betur fer í dag í skólanum var reiðin runnin af mér og ég komst í gegnum tíman án þess að hugsa um ofbeldi!
Daður er e-ð sem ítalir eru alveg sér á báti með. Þegar maður fer á djammið þá hafa þeir allavega tíma í að spurja um nafn, hvaðan maður er, hvað maður er að gera og þess háttar. Þeir sýna því áhuga sem þú ert að segja og hvað þú ert að gera í lífinu. En daður var algjörlega tekið á nýtt level í dag. Fór í Footlocker til að leita að góðum strigaskóm og ég spurði afgreiðslumanninn hvort hann skildi ensku sem hann játaði. Svo hann fór að forvitnast hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera á Ítalíu og ég sá strax eftir því að hafa sagt honum að ég væri búsétt hér. Eftir 5 mínútna samtal spurði hann mig hvort ég væri að vinna um kvöldið og hvort ég vildi koma með honum á skemmtistað. Ég reyndi eftir fremasta megni að koma mér útúr þessu og ákvað svo í þokkabót ekki að kaupa skóna (enda var ég að reyna að drífa mig út úr búðinni), sagði að ég þyrfti að skoða þetta aðeins betur og myndi sennilega koma aftur á morgun eða hinn að kaupa. Þá tjáði hann mér það að hann ætlaði að skipta vöktunum svo hann myndi vera að vinna þessa tvo daga.
Þessir Ítalir...
Þeir eru vægast sagt stórmerkilegir, þeir vita alveg mjög takmarkað um Ísland og þá sérstaklega hús faðir minn hann Mirco. Í hvert skipti við matarborðið mig spyr hann fjöldan allan af spurningum um t.d hvort það sé pasta á Íslandi, kál, tómatar, pestó, basilikka og hann var e-ð að velta fyrir sér snjóhúsum um daginn!
Ég gaf honum bók um Ísland á ítölsku en samt gleymir hann alltaf að þú getur ekki keyrt þangað!
Það er samt mjög gaman að vera Íslendingur hér, þegar ég segi ameríkönum að ég sé frá Íslandi þá er undantekningalaust sagt "wow i've never met an icelandic person before, omygod this is amazing". Mér líður eins og ég sé einhvern forngrísk gyðja sem ætti að vera löngu útdauð, svo merkilegur er íslendingurinn hér!
En núna eru bara 40 something dagar í að ég fer til Spánar og vægast sagt þá hlakka ég aðeins of mikið til.
Læt þetta duga af ítölskum fréttum í bili
Ebba
No comments:
Post a Comment