Held að það sé kominn tími á blogg nr.2 héðan úr Mílanó. Fyrstu dagarnir hér hafa verið vægast sagt rólegir. Stelpan er ekki byrjuð í skólanum og þarf ég því að vera heima allan daginn að passa. Ég vakna fæ mér að borða og tek upp góða bók að lesa eða kíki jafnvel á mbl svona til að fylgjast með hvað er að gerast heima. Svo tekur við smá session í því að lita, pússla, fara í prinsessuleik, telja peninga eða horfa á teiknimyndir.
Hljómar rosalega sem ljúft líf en ég hreinlega get ekki beðið eftir að hún byrji í skólanum svo ég geti farið að gera eitthvað á daginn.
Hún byrjar í skólanum í næstu viku og ég byrja svo í ítölsku skóla 1.október.
Ég gleymdi að segja frá 2 öðrum fjölskyldumeðlimum í síðasta bloggi, það er hundurinn Oliver og "þernan" hún Sharmela. Ég fékk að vita það áður en ég kom út að Mariavittora elskaði Oliver, hann væri eins og litli bróðir hennar og ég þyrfti semsagt að vera vön hundum. Ekki mikið mál fyrir mig, en það sem ég vorkenni greyið hundinum. Ég er að segja ykkur það, hann hatar stelpuna. Hún má ekki koma við hann þá byrjar hann að urra eða gelta eða hleypur hreinlega í burtu, og svo segir hún "ooo he loves me". Ég get ekki annað en hlegið að þessu, því hundurinn elskar mig . Án gríns, hann vill alltaf vera í mínu herbergi, liggja í mínu rúmi og hann eltir mig um allt húsið.
Sharmela ("þernan") á heima hér, hún sér um að þrífa og elda og ég verð að segja að það er frekar skrýtið að þurfa ekki að gera neitt svoleiðis, þar sem þetta er oftast í verkahring Aupair. Ég reyndar sé nú um að búa um mitt eigið rúm og halda herberginu þokkalega hreinu, en hún skúrar og þrífur glugga og þess háttar.
Ég hef farið núna í nokkur skipti út að hlaupa, en þá hefur Sharmela einmitt litið eftir Mariuvittoriu á meðan. Ég held samt að ég hlaupi ekkert mjög mikið hérna. Einn daginn á ég eftir að detta niður dauð úr mengun og vondri lykt, það er ekkert eðilegt hvað sum hverfin hérna lykta illa. Um daginn þegar ég var að hlaupa þá fann ég svo til í lungunum, ég var bara að anda að mér einhverri bensín drullu og ég var bara gráti nær (for real).
Svona það markverðasta samt sem ég hef gert nú þegar var að ég skellti mér í bíó á mánudaginn, Ice Age 3. Ég get því miður ekki sagt til um hvort myndin var skemmtileg, því ég skildi ekki neitt hvað var í gangi. Var sjálfsögðu góðmennskan uppmáluð og fór með stelpunni á myndina með ítölsku tali, þótt hún hefði eflaust skilið hvað væri í gangi ef hún væri á ensku. Gat hlegið einstöku sinnum að litla kvikindu sem er alltaf að elta hnetuna (er þetta ekki annars hneta?) annars dottaði ég svona af og til.
Svo, mér til mikillar gleði, kom vinkona Mariuvittoriu í heimsókn og hún er með aupair frá Noregi sem kom einmitt líka í heimsókn. Það var mjög ánægjulegt að hitta einhvern á svipuðum aldri og ég hún bauð mér út á lífið, á miðvikudegi. Það var svona international night, alveg stappað af fólki allsstaðar að úr heiminum. Fékk svona nettan Rhodos fíling, ekki leiðinlegt að fara út ekki í leggings, ekki í jakka og grillast úr hita utandyra. Þarna dönsuðu allir, það var enginn sem var leiðinlega týpan og stóð fyrir utan dansgólfið og horfði á hina skemmta sér
Íbúðin sem ég bý í er samt alveg lygilega fyndin. Það eru ekki neinir lásar á hurðunum svo þegar ég er í sturtu eða klósettinu þá varð ég bara að hafa ólæst. Það er reyndar alltílagi þar sem ég er með sér baðhergi útaf fyrir mig. Ég hins vegar stelst í sturtu í öðru baðherbergi því þar er gufa, þaaaað er svo nice. Sérstaklega eftir að ég er búin að fara út að hlaupa að skella sér í smá gufubað.
Ítalir eru samt alveg magnaðir þegar þeir tala, það er ekki séns að ég geti áttað mig á því hvort þau séu glöð eða reið. Það tala allir svo hátt og ákveðið og með mikilli innlifun, þau gætu verið að segja sögu frá því þegar þau sáu fyndna mynd í bíó en það hljómar eins og þau séu reið. Alveg magnað.
Fór svo í dag með þeim að skoða skólann hennar Mariuvittoriu, þar voru saman komnar konur á aldrinum 30-50, allar með handbag (að sjálfsögðu italian design), allar alveg lygilega mjóar og ofan á það tanaðar.
Ítölsk mannamót eru með þeim fyndnari, alllir kyssa alla og knúsa alla og eru alveg ægilega glaðir að sjá hvort annað. Svo er slúðrað eins og ég veit ekki hvað, ég skil reyndar ekki alveg hvað þau eru að segja, en ég get pikkað út eitt og eitt orð og ég átta mig alveg á því að það er gossip time af bestu gerð!
Svo fannst mér alveg best þegar Mirco spurði mig hvort hann gæti keyrt til Íslands, hann hafði í alvörunni ekki hugmynd um hvar Ísland væri, og hvað þá að það væri eyja. Svo vorum við að skoða landakort og hann var að leita að Íslandi hjá Rússlandi. Mariavittoria benti um daginn og Antarctica og spurði hvort ég ætti heima þar.
Þessir Ítalir!
En ég er að fara í afmæli í kvöld hjá stelpu sem ég kynntist fyrir 2 dögum, það gæti orðið fróðlegt.
Læt þetta duga af fréttum í bili
endilega verið dugleg að kvitta, svo gaman að vita hverjir eru að fylgjast með manni!
xoxo
Ebba Karen
No comments:
Post a Comment