Saturday, January 30, 2010

Margt í fréttum

Heil og sæl
Núna er liðinn mánuður frá síðasta bloggi og því hef ég frá mörgu skemmtilegu að segja! Svo mörgu að ég veit næstum því ekki hvar ég á að byrja.
Svona það helsta í fréttum er að ég var í afskaplega góðu skapi einn daginn í ítölskuskólanum og skráði mig á næsta námskeið, ég svona eiginlega lít á það sem mistök en svo ef maður hugsar skynsamlega þá væri ekki vitlaust að reyna að fylla daginn af einhverri afþreyingu. Það verður bara að segjast eins og er að frítími minn er næstum óendanlegur. Hann er svo mikill að ég skipti um rækt svo það verði auðveldar fyrir mig að fara tvisvar á dag í ræktina. Ég er heldur ekkert að hata nýju ræktina því núna eru líka karlmenn á svæðinu og það verður bara að segjast eins og er að það er EKKI leiðinlegt. Ég ítreka það samt að ástæða þess að ég skipti var lengri opnunartími og fleiri tæki í boði en ekki sú staðreynd að ræktin er troðfull af ofurheitum súkkulaði ítölum...
hhehhhh

Ég veit ekki alveg hvort ég er svona ótrúlega heppin eða hvort Mílanó er troðfull af viðburðum hvern einasta dag en það verður að segjast eins og er að ég hef hitt á ótrúlegustu hluti hérna úti. Ég og Rebecca vinkona mín höfum einstaklega gaman að því að taka svokallaða "random daga", sem felst í því að fara útaf af einhverri Metro stöð eða taka bara einhvern strætó. Í síðasta bloggi sagði ég frá minningarathöfn og pasta hátíð, í þetta skiptið var Duomo torg troðfullt af karlmönnum í hermanna- og lögreglubúningum. Ástæðan var víst sú að einhver herforingi (held að hann hafi verið rússneskur) var staddur í Mílanó og því fylgdi herlúðrasveit og það þurfti sjálfsögðu að hylla manninn með öllu tilheyrandi.
Ég líka lenti í því um daginn að nemendur voru að mótmæla, ég var í mínu mesta sakleysi að labba úr ræktinni þegar ég sé óeirðalöggu og brjálaða krakka öskra og ég er ekki frá því nema ég hafi heyrt byssuskot. Ég var ekki lengi að stökkva inní næsta strætó áður en ég varð fyrir skoti eða að löggan myndi grípa í mig.

Ítalskt tungumál er bara í svo miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana, það fær mig alltaf til að brosa. Í fyrsta lagi er það bara hreinn brandari að heyra ítali tala í símann. Þeir segja ekki "já við heyrumst seinna, bæbæ" heldur undir lok símtalsins tekur við lengsta kveðja sem ég hef heyrt sem hljómar einhvernveginn svona "ciao ciao ciaociaociao... va bene..ciao ciao... ciaco.. arrivederci..ciaociao". Fyrirgefið en er hægt að gera e-ð annað en að hlægja að þessu?
Þeir sýna nú smá viðleitni samt í sumum neðanjarðarlestum, nýjust lestarnar bjóða uppá konu sem segir fyrst á ítölsku "næsta stopp er San Babila, hurðin opnast þér á hægri hönd" og svo segir hún þetta á ensku líka. Nema það er líka bara hreinn brandari, það var ekkert verið að velja ítalska konu sem er þokkalega góð í ensku. Ó neinei.. þetta hljómar einhvern veginn svona "nextah stoppah isah San Babila, doors openah onah the rigthah". Þið verið bara að fyrirgefa en ég flissa í hvert einasta skipti sem ég heyri þetta.
Verð nú samt að monta mig aðeins og vekja athygli á því að ég er farin að grípa til ítölskunnar á öllum mögulegum stöðum, get ekki sagt að ég tali reiprennandi en ég get svo sannarlega gert mig skiljanlega. Eitt stórt klapp fyrir því!
Það er samt stórskemmtilegur munur á því hvernig konur og karlar tala. Tók best eftir því í skólanum um daginn þegar við vorum að hlusta á hvernig tölurnar eru sagðar, þá kom til skiptis kona og karl. Tilfinningin sem ég fæ þegar karlar tala ítölsku er svona lúmskt sjarmerandi en konurnar eru svo gribbulegar! Ég finn bara til í eyrunum, það er svona eins og þær séu alltaf að væla, tuða eða að skamma.

Það er samt eitt sem ég mun seint eða aldrei ná hér og það er bæði gangandi og bílaumferð. Ég er ALLTAF að labba á fólk eða það að labba á mig, það er svona eins og ég sé ósýnileg, fólk labbar stundum bara yfir mig! Ég reyni að beygja frá öllum en það virðist ekki ganga, það eru greinilega einhverja umferðareglur hér sem við Íslendingar þekkjum ekki.

Ég er líka ennþá að melta það að "fjölskyldan mín" hér er rík og samfélagið sem þau lifa í er samfélag ríkra foreldra og krakka.
-Svona til að byrja með þá spurði Mirco mig um daginn hvort ég hefði séð antík Rolex úrið hans. Hvað ætli það hafi kostað?
-Stelpan átti afmæli um daginn og hún fékk Nintendo DS og tvo leiki í afmælisgjöf. Nota Bene, hún er 6 ára.
-Afmælisveislan var haldin í sal þar sem allt var tilbúið, rennibrautir og klifurkastalar. Boðið var upp blöðru fígúrur og andlitsmálningu
-Hún fékk Nintendo Wii í afmælisgjöf frá BEKKNUM SÍNUM! Hvað er það?? Ég hata reyndar ekkert þessa gjöf, ég nota hana töluvert meira heldur en hún þar sem hún hefur ekki þolinmæði í 20 mínútna langan tennisleik!
Ég mun samt sennilega seint ná uppí þetta.

En síðan ég kom hingað þá hef ég oft blótað krakkanum, þolinmæðin mín er oft alveg afskaplega lítil og ég bölva sjálfri mér í sand og ösku fyrir að hafa valið þetta starf. En ef maður horfi framhjá öllu því sem pirrar mann og er virkilega opin fyrir öllu þá get ég séð hvað stelpan er mikill gullmoli. Í haust var hún greinilega ný búin að læra orðið beautiful og notaði hún það óspart, nýjasta nýtt er hinsvegar o my goodness og hún er svo ægilega krúttleg þegar hún segir þetta. Hún er líka alveg virkilega skörp, við vorum í leigubíl um daginn og bílstjórinn var að tala í símann og hún spurði mig "Ebba, er ekki virkilega hættulegt að keyra og tala í símann?" ég játaði því en benti henni á handfrjálsa búnaðinn. En þá fór hún að tala um pabba sinn sem gæti sko talað í símann, borðað, drukkið og keyrt bílinn og hann væri sko ekkert hættulegur. Nefndi það líka að hann hafi einu sinni borað í nefið sem hann hefði ekki átt að gera, en hún mætti alveg gera það því hún væri bara krakki en ekki hann.

Bjarni skellti sér í heimsókn um síðustu helgi en hann er búsettur á Spáni þessa mánuðina. Það var mjög gott og gaman að fá hann því ég fór þá aftur að horfa á borgina með túrista augum. Skelltum okkur á vísinda og tækni safn Da Vinci, tók okkur ekki nema 3 tíma að komast í gegnum það og heilinn á mér var vægast sagt orðinn soðinn af upplýsingaflæði. Skelltum okkur líka upp á Duomo sem ég hef ætlað að gera heillengi og var vægast sagt geðveikt að sjá ofan á borgina, ég ætla mér aftur í vor þegar veðrið er orðið betra. Sögur segja víst að maður eigi að geta séð alpana þaðan!
Sennilega hápunktar helgarinnar voru þegar við skelltum okkur á fótboltaleik á San Siro, Inter-Fiorentina. Stemningin á vellinum var vægast sagt gríðarleg og var ekki leiðinlegt að sjá allar þessar fótboltabullur syngja hástöfum allan tímann þaulæfða söngva. Fórum líka á Placebo tónleika og ég var næstum með gæsahúð allan tímann, hann er svo góður söngvari. Það var frjáls sætaskipan þar svo við fengum okkur sæti frekar ofarlega og nutum bara sýningarinnar.

Annars er jólaskapið svona við það að detta inn, hér er jólatréið komið upp og stelpan spilar jólalög við hvert tækifæri en það verður að segjast eins og er að það er ekki mjög jólalegt hér. Blautt og dimmt og enginn snjór. Verður ennþá minna jólalegra þegar ég hendi mér yfir til spánar í meiri hita. Gotta love it!

Og fyrir þá sem eru ekki með facebook þá getið þið séð myndirnar mínar á www.flickr.com/photos/ebbakaren

Þangað til næst

No comments: