Sunday, January 31, 2010

Janúar flaug í burtu

Ég er ekkert að grínast en það eru einhver álög á mér og bloggsíðum. Á yngri árum þoldi ég náttúrulega aldrei að vera á sama stað og bjó til svona milljón og eina bloggsíðu. En núna gaf bloggar.is öndina, mér var ekki ætlað að segja ykkur frá því hversu ótrúlega skemmtileg upplifun það var að fara á Inter-Milan fótboltaleikinn!
Veit ekki hvernig sé best að skrifa athugasemd en ætli það sé ekki hentugast að velja Name/URL, þið bara finnið út úr því :)
Á leikdegi peppuðum við, ég og Rebecca, okkur upp með því að hittast og fá okkur að borða
saman. Mættum mjög tímanlega við völlinn því við ætluðum að freista þess að reyna að hitta á leikmennina þegar þeir koma úr rútum sínum og labba inn á leikvanginn. Við löbbuðum í heilan hring um allt svæðið og enginn inngangur sjáanlegur, við erum með kenningu að þeir labbi inn í neðanjarðar göng í einhverja tugi metra fjarlægð. En þá var lítið annað í stöðunni en að leggja af stað í átt að sætum okkar sem tók okkur alveg ágætis tíma, sætin okkar voru staðsett aftan við markið og frekar ofarlega. Á leið okkar hittum við tvær ungar stelpur sem spurðu "fyrirgefið en hvar er miðasalan fyrir leikinn?", ég og Rebecca litum á hvora aðra og hugsuðum báðar "er þessi gella að grínast?".
Við bentum henni góðfúslega á það að líkur þess að hún gæti keypt sér miða tveim tímum fyrir
leik væru ca 0,1 % ef það næði því. Hún spurði hvort einhver væri til í að gefa henni miðan sinn í skiptum fyrir síma og satt best að segja held ég að enginn væri til í að gefa miðann sinn. Völlurinn var troðfullur og stemningin var ólýsanleg, staðsetningin á sætunum var alveg frábær til að sjá gang leiksins en ég gat því miður ekki dáðst að kálfunum og
lærunum á þeim eins vel og síðast.





Við vorum umkringdar algjörum bullum og við hoppuðum og skoppuðum og sungum og öskruðum eins og við fengjum borgað fyrir það. Mjög fyndið samt þegar ótrúlega reiðir strákar tóku sig til og gáfu fokk merkið þegar Milan menn löbbuðu inn á völlinn, eins og þeir séu e-ð að fara að sjá þetta! Ég missti mig samt aðeins í gleðinni og fagnaði þvílíkt þegar Beckham og Ronaldinho voru kynntir, fattaði ekki að ég var umkringd Inter bullum en ég var bara svo fjandi spennt að sjá þá live! Svo er það næsta á planinu að reyna að ná miðum á Inter-Chelsea, það væri bara einu númeri of gott!

Annars er allt ljómandi gott í fréttum, í gær fórum ég, Rebecca, Vala, Kristiina og Jasmine til Torino í smá túrista dagsferð. Ég byrjaði á því að sofa yfir mig og þurfti að fara útúr húsi á 5 mínútum sem hafði þær afleiðingar að ég fór með myndavél með engu batterí. Gott Ebba. En ég á núna svo ótrúlega myndarlegan iphone þannig ég gat náð í smá sönnunargögn að ég hafi virkilega farið. Torino er alveg ótrúlega falleg borg, hún er fræg fyrir það hvað allar göturnar eru skipulega gerðar, allar götur liggja í 90 gráðu horn á þá næstu, þetta er svona eins og taflborð. Allt mjög snyrtilegt og andrúmsloftið svo afslappað og þægilegt, mikið af litlum vintage búðum og búðum sem selja allskonar hluti, alveg svona fullkomin búð til að gramsa í. Fórum á virkilega athyglisvert egypskt safn sem hafði að geyma fullt af styttum, vösum, brotum úr veggjum frá því mörg þúsund árum fyrir Krist, sáum alvöru múmíur, virkilega alvöru dauðan kall sem hafði verið vafinn inn og geymdur. Ég varð ástfangin af táknununum þeirra sem þeir nota til að skrifa, núna ligg ég yfir þessu á netinu og les mér til um Egyptaland.
Þegar við komum heim frá Torino þá skelltum við okkur á djammið, sem var mjög gaman þar sem klúbburinn var stútfullur af Bandaríkjamönnum. Rebecca var þar náttúrulega á algjörum heimavelli og var hamingjan ein að geta spjallað við fullt fullt af fólki á djamminu.
Við stelpurnar erum búnar að vera að ræða mismunandi stefnumótamenningu og Íslendingar eru held ég alveg sér á báti, í Bandaríkjunum telst það gott stefnumót ef það er eins og einn koss.
Hér verð ég alltaf alveg þvílíkt hissa þegar strákar koma til manns á djamminu og spurja hvort þeir meiga bjóða manni út að borða. Ég í alvöru hugsa "ætlaru ekki að reyna að sofa hjá mér núna?", nei nei þetta eru herramenn þeir bjóða út að borða eða bjóða þér heim til þeirra í mat. Alvöru karlmenn hér á ferð!
Er núna að taka mig á í ræktinni og er orðinn fastagestur þarna kvölds og morgna og þegar maður er svona oft þarna þá getur maður ekki annað en eignast uppáhalds heita einkaþjálfara. Ég hljóma kannski rosalega grunnhygginn en ég get ekki séð e-ð afþví að stara pínu :) Svo er einn þeirra orðinn algjör félagi og ætlar að hjálpa mér í átakinu mínu, heitir þessu skemmtilega nafni Gregorio. Mér finnst alltaf jafn gaman að segja þetta nafn því ég legg ansi skemmtilega áherslu á fyrra o-ið. Gregoooorio, prófið þetta, er nefninlega lúmskt gaman. Ótrúlega gaman líka að spá í þessum nöfnum á strákunum hér, eins og Inga Dís orðaði það svo skemmtilega að þeir hljóma virkilega heitir bara við að heyra nöfnin. Antooonio, Alessandro, Fabio, Fabrizzio, Maaarco og reynið að lesa þetta allt með ítölskum hreim.

Annars verður að segjast eins og er að ég er orðin ansi þreytt á starfinu mínu, stelpan er alveg að missa sig í óþægðinni og er hún sennilega orðin rosalega spennt og stressuð fyrir nýja barninu sem mun mæta á svæðið í lok febrúar. Þar þarf ég að undirbúa mig vel, kaupa eyrnatappa og tilheyrandi svo ég geti nú náð þokkalega góðum nætursvafn. Get líka alveg viðurkennt það að ég er sjálf spennt að fá lítið kríli á heimilið. Börn eru alltaf voða krúttleg svona á meðan ég þarf ekki að hugsa um þau.
Stundum tekur Mariavittoria sig til og stappar í gólfið og labbar um alla íbúðina og segir annað hvort "SÍ SÍ SÍ SÍ SÍ SÍ" eða "NO NO NO NO" svona mismunandi eftir umræðuefni. Hún er alveg með þokkalega góða öskur rödd sem hún er ekkert að spara og eyðir mestum tíma sínum í að kvarta og setja upp svipi og segja manni reglulega að maður sé vitlaus og viti ekki neitt.
Hljómar alveg einstaklega skemmtilega ekki satt? En þetta er bætt upp með ferðalögum, fótboltaleikjum og tónleikum.

Annars styttist óðum í að ég verði gömul kona, 21 árs og er ég byrjuð að plana afmælið. Væri virkilega gaman að halda partýið í sporvagni sem keyrir með þig um alla borgina en ég er líka búin að sjá skemtilegan stað sem býður upp á partýhöld. Þarf að skoða þetta vel og vandlega þar sem maður á ekki oft afmæli í útlöndum!
Annars líður mér eins og ég sé bara alveg á leiðinni heim, búin að kaupa flugið heim í maí og finnst þetta allt bara að klárast, það verður vægast sagt blendnar tilfinningar að yfirgefa Ítalíu.
Læt þetta annars duga af fréttum í bili..
þangað til næst

Ebba Karen

Saturday, January 30, 2010

142 dagar á Ítalíu

Heil og sæl
Ég er stundum að heyra frá fólki að ég hafi alltof mikinn tíma og sé aldrei að gera neitt. Ég hef verið að velta þessu rosalega mikið fyrir mér núna síðustu daga. Ég bý í Mílanó, hér er margt að skoða og margt að gera en það verður aðeins að taka það með í reikninginn að allt kostar. Ég get ekki hagað mér þessa 9 mánuði sem ég er búsett hér eins og ég gerði í 10 daga á Rhodos. Hér bý ég og hér lifi ég. Heima myndi ég væntanlega fara í skólann/vinnu, æfingu og svo kannski stundum kíkja á rúntinn, sund eða bara slappa af heima.
Dagurinn minn hér felst í rækt um morguninn, skóli 11-1, vinna 5-8 og svo aftur rækt. Þarna inn á milli hef ég nægan tíma til að gera hitt og þetta en ég bara tími ekki og nenni ekki að fara í búðir, kaffihús eða á endalaus söfn.
Helgarnar eru tíminn til að gera e-ð og helgarnar fram að heimkomu munu fara í að kíkja í nágranna borgir og vonandi e-ð smá útúr landi.

Það getur alveg verið drep leiðinlegt að gera ekki neitt á daginn en það hefur ekkert bara galla. Ég hef verið að gera ýmislegt sem ég hef ekki gefið mér tíma til á Íslandi. Ég er búin að lesa 10 bækur, ég prjónaði mér trefil og eyrnaband og stefni á að prjóna meira, ég hef tíma til að taka fjarnám og læra ítölsku.


Það er samt alveg ósjálfrátt að þegar maður hefur svona mikinn tíma að maður hugsar heim og það er alveg staðreynd að ég hlakka mjög mikið til að koma heim. Ég myndi samt aldrei vilja skipta út þessari reynslu, þetta er alveg meiri háttar og ég er meira en til í það að flytja hingað út aftur, en þá ekki sem aupair.
Ekki nóg með það að ég læri nýtt tungumál og kynnist nýrri menningu þá er ég búin að víkka sjóndeildarhringinn gagnvart mat. Ýmislegt sem ég mundi hugsanlega neita heima fæ ég mig til að smakka hér, þau eru alltaf að koma með nýja osta og ýmislegt sem lítur hrikalega út en ég smakka samt. Bæði afþví ég er kurteis og það er ókurteisi að neita mat og líka því þetta er kannski e-ð sem ég get bara smakkað hér en ekki heima.
Svo er ég farin að geta drukkið bjór og rauðvín sem ég held að stelpurnar mínar séu virkilega ánægðar með, trúi ekki annað en að þær séu stoltar af mér núna.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað í andskotanum ég er að gera hér, ég er bara ensku kennari, við gerum heimavinnu og leikum okkur í 3 tíma á dag. En það er alveg á hreinu að mín dvöl er að skila sér. Foreldarnir fóru á fund með kennurunum og hún er lang efst í enskunni, alveg yfirburðar best í bekknum, þrátt fyrir að hegðunin mætti vera betri. Það er svo gaman að fá svona fréttir, að vita að maður er að gera e-ð gott og einhver partur af þessari visku sem ég bý yfir (hehe) skili sér.

Nýja árið er strax farið vel af stað, er búin að fara í eina dagsferð til Bergamo, kaupa mér miða á Inter-AC og á tónleika með Kasabian. Erum svo með plön að fara til Torino, Florence, Pisa, Rimini, Garda Vatns og ef möguleiki er að keyra upp til Sviss. Það er ótrúlegt hvað ég er með mikið af fallegum stöð bara í næsta nágrenni, það tekur ekki nema klukkutíma að keyra til Sviss og væri það algjör draumur að komast þangað.

En ég læt þetta duga af fréttum í bili
Kem með eitt sjóðandi þegar ég er búin á deitinu mínu með Ronaldinho, Beckham, Eto'o, Mourinho og Pato :)
love, Ebba Karen

nýtt ár, nýjir tímar

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og vandamenn og takk kærlega fyrir það gamla. Árið 2009 var sennilega eitt það besta hingað til. Við vinkonurnar fórum hreinlega á kostum og það er bara hlægilegt að rifja upp alla vitleysuna sem við gerðum síðasta árið. Ætla að drita niður nettu yfirliti frá síðasta ári..
-Ég byrjaði síðustu önnina mína í Menntaskólanum á Akureyri
-Fór í nokkrar ansi eftirminnilegar ferðir með stelpunum til Reykjavíkur
-Varð tvítug og þar með gjaldgeng í ríkið
-Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana
-Dimmiteraði
-Útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri (besti dagur ársins)
-LungA
-Fiskidagurinn
og svo sennilega það sem mér finnst skemmtilegast að segja frá er það að hafa tekið mig til og flutt til Ítalíu.
Það er ómetanlegt að læra nýtt tungumál, kynnast nýjum hefðum og vera partur af öðruvísi menningu. Það er ekki alveg það léttasta í heiminum að búa inn á ókunnugri fjölskyldu en ég er ótrúlega heppin með fjölskyldu sem er meira en til í það að taka mig inn í fjölskylduna og láta sem ég er partur af þeim. Það eru ekki nærri því allir aupairar sem geta sagt það. Sumar stelpurnar sem ég þekki eru að lenda í því að þeim sé bannað að borða kvöldmat með fjölskyldunni því þær eru að trufla dýrmætan fjölskyldutíma eða banna þeim að horfa á sjónvarp eða eitthvað í þá áttina.

Ég er komin með nokkur markmið fyrir árið 2010, t.d það að leggja mig meira fram við að tala ítölskuna, koma mér í gott form aftur svo kannski maður verði gjaldgengur á hlaupabrautina og ég ætla að rifja upp kynni mín við flautuna. Held að jákvæðni sé líka ofarlega á listanum, hef komist að því að það borgar sig ekki að vera neikvæður!

En frá því ég bloggaði síðast er margt skemmtilegt búið að gerast. Rebecca vinkona mín þurfti að taka ACT próf og ég hjálpaði henni að læra undir stærðfræðihlutann, svo þegar við komumst að því að próftöku staður var svolítið fyrir utan Mílanó og það þurfti að keyra þangað kom smá babb í bátinn. Rebecca kann ekki að keyra beinskiptan bíl, sem var því miður eini bíllin í boði. Ég var ekkert nema góðmennskan og bauðst til að skutla henni sem var ekkert lítið stressandi, eins og ég hef sagt áður þá er umferðin hérna algjör geðveiki. Ég sit samt hér að skrifa bloggið svo ég komst lifandi í gegnum þetta, ég er samt ekki með það á dagskránni að keyra aftur!

Jólunum og áramótunum eyddi ég á Spáni með Önnu, Villa og Bjarna. Ferðlagið þangað var náttúrulega bara e-ð grín. Ég lenti 10 tímum seinna en áætlað var, plús það að farangurinn minn týndist. Toppurinn að mæta á aðfangadagsnóttu farangurslaus á Spáni og hitta Önnu sína í fyrsta skipti í 4 mánuði. Ég grét, svo einfalt er það!
Ekki gat ég verið í sveittum og skítugum fötum á aðfangadagskvöld svo ég hljóp inn í Zöru keypti mér kjól, sokkabuxur og bol á svo sannarlega met tíma.
En þessi tími sem ég var á Spáni var ótrúlega skemmtilegur, að geta talað íslensku stanslaust í 12 daga var dramur. Við vorum algjörir túristar og skoðuðum byggingar og fórum á söfn.
Kl 6 á aðfangadagskvöld hentumst við inn á Írskan Pöbb og fengum okkur samloku og vatn og á gamlárs borðuðum við Dominos Pizzu. En það var bara gaman að prófa að upplifa jólin svolítið öðruvísi, satt best að segja fann ég ekki fyrir því að ég væri að missa af einhverju heima. Maður tók ekki einu sinni eftir því að það væri aðfangadagur.
Mig langar samt alveg að leggja fram tillögu við móður mína, að hún geri möndlugraut þegar ég kem heim. plís plís plís?

Á fimmtudaginn síðastliðinn mætti ég í fyrsta tímann minn í Leveli 2 í ítölskunáminu, bekkjarfélagar mínir eru konur á þrítugsaldri sem hafa búið hér í allaveganna ár og tala líka svona fluent! Þannig fyrsta tímann sat ég og sagði ekki orð og skildi heldur ekki orð, semsagt alveg hreint frábærar 2 klukkustundir. En þetta er að sjálfsögðu ekkert nema hvetjandi, ég neita að koma heim og geta ekki myndað einhverja fallega setningu eða frásögn handa ykkur klakabúum!

Það er frekar fyndið að vera búsettur á Ítalíu og fá snjó. Dagana fyrir jól þá snjóaði eins og ég hefði borgað sérstaklega fyrir það. Maður setur ekki alveg samasem merki á milli lands nær miðbaug og svo snjór, en þetta er vissulega útaf því ég bý ca klukkutíma frá ölpunum. Svo var að snjóa á ýmsum undarlegum stöðum heyrði ég.

Í haust þá hitti ég stelpu á djamminu sem bauð mér í afmælið sitt 3 dögum seinna, ég sló til og ákvað að mæta, í dag er þessi stelpa ein besta vinkona mín hér úti.
Aupair lífið er mikið þannig að við erum einhverjar stelpur að hittast og einhver kemur með nýja aupairvinkonu svo maður er oft að hitta ný andlit og djamma með stelpum sem maður hitti fyrir 5 mínútum síðan. Í gær áttum við Rebecca deit með stelpu sem við höfðum hitt á djamminu fyrir jól, hún tók með sér 3 vinkonur sem ég rétt kannaðist við og Rebecca var með bandaríska vinkonu sína. Þannig ágætis hópur af stelpum sem svona tæplega þekktist.
Til að toppa þetta allt þá bauð ég stelpu að koma með sem ég þekkti nákvæmlega ekki neitt. Málið er að þessar stelpur vildu "predrink" á McDonalds, komu með sitt eigið áfengi og sulluðu því í McDonalds gosið, ekkert sérstaklega classy en alveg fjandi ódýrt. Ég fer í röðina til að fá mér vatnsglas og sé þar stelpu að reyna að tala við afgreiðslumanninn og spurja um diskótek, hún talaði enga ítölsku, tæplega ensku og afgreiðslumaðurinn einungis ítölsku. Ég spyr hana hvort ég geti aðstoðað og hún segist vera að leita að einhverjum klúbb, engum sérstökum bara einhverjum. Ég útskýri fyrir henni staðsetningu á klúbb sem við erum að fara á og þá segir hún "já takk kærlega, vinkona mín sem ég er að heimsækja er að vinna en ég ákvað samt að fara út þótt ég sé ein"!
Góðmennið Ebba gat náttúrulega ekki látið stelpuna fara eina á djammið svo ég bauð henni bara með okkur. Við erum að tala um það að ég bjargaði kvöldinu hennar, hún skemmti sér held ég þrusu vel og sagði takk svona milljón og einu sinni (enda varð hún alveg vel drukkin).
Svo .. góðverk á árinu 2010 - CHECK!

En ég læt þetta duga af fréttum í bili.
ciao ciao

Margt í fréttum

Heil og sæl
Núna er liðinn mánuður frá síðasta bloggi og því hef ég frá mörgu skemmtilegu að segja! Svo mörgu að ég veit næstum því ekki hvar ég á að byrja.
Svona það helsta í fréttum er að ég var í afskaplega góðu skapi einn daginn í ítölskuskólanum og skráði mig á næsta námskeið, ég svona eiginlega lít á það sem mistök en svo ef maður hugsar skynsamlega þá væri ekki vitlaust að reyna að fylla daginn af einhverri afþreyingu. Það verður bara að segjast eins og er að frítími minn er næstum óendanlegur. Hann er svo mikill að ég skipti um rækt svo það verði auðveldar fyrir mig að fara tvisvar á dag í ræktina. Ég er heldur ekkert að hata nýju ræktina því núna eru líka karlmenn á svæðinu og það verður bara að segjast eins og er að það er EKKI leiðinlegt. Ég ítreka það samt að ástæða þess að ég skipti var lengri opnunartími og fleiri tæki í boði en ekki sú staðreynd að ræktin er troðfull af ofurheitum súkkulaði ítölum...
hhehhhh

Ég veit ekki alveg hvort ég er svona ótrúlega heppin eða hvort Mílanó er troðfull af viðburðum hvern einasta dag en það verður að segjast eins og er að ég hef hitt á ótrúlegustu hluti hérna úti. Ég og Rebecca vinkona mín höfum einstaklega gaman að því að taka svokallaða "random daga", sem felst í því að fara útaf af einhverri Metro stöð eða taka bara einhvern strætó. Í síðasta bloggi sagði ég frá minningarathöfn og pasta hátíð, í þetta skiptið var Duomo torg troðfullt af karlmönnum í hermanna- og lögreglubúningum. Ástæðan var víst sú að einhver herforingi (held að hann hafi verið rússneskur) var staddur í Mílanó og því fylgdi herlúðrasveit og það þurfti sjálfsögðu að hylla manninn með öllu tilheyrandi.
Ég líka lenti í því um daginn að nemendur voru að mótmæla, ég var í mínu mesta sakleysi að labba úr ræktinni þegar ég sé óeirðalöggu og brjálaða krakka öskra og ég er ekki frá því nema ég hafi heyrt byssuskot. Ég var ekki lengi að stökkva inní næsta strætó áður en ég varð fyrir skoti eða að löggan myndi grípa í mig.

Ítalskt tungumál er bara í svo miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana, það fær mig alltaf til að brosa. Í fyrsta lagi er það bara hreinn brandari að heyra ítali tala í símann. Þeir segja ekki "já við heyrumst seinna, bæbæ" heldur undir lok símtalsins tekur við lengsta kveðja sem ég hef heyrt sem hljómar einhvernveginn svona "ciao ciao ciaociaociao... va bene..ciao ciao... ciaco.. arrivederci..ciaociao". Fyrirgefið en er hægt að gera e-ð annað en að hlægja að þessu?
Þeir sýna nú smá viðleitni samt í sumum neðanjarðarlestum, nýjust lestarnar bjóða uppá konu sem segir fyrst á ítölsku "næsta stopp er San Babila, hurðin opnast þér á hægri hönd" og svo segir hún þetta á ensku líka. Nema það er líka bara hreinn brandari, það var ekkert verið að velja ítalska konu sem er þokkalega góð í ensku. Ó neinei.. þetta hljómar einhvern veginn svona "nextah stoppah isah San Babila, doors openah onah the rigthah". Þið verið bara að fyrirgefa en ég flissa í hvert einasta skipti sem ég heyri þetta.
Verð nú samt að monta mig aðeins og vekja athygli á því að ég er farin að grípa til ítölskunnar á öllum mögulegum stöðum, get ekki sagt að ég tali reiprennandi en ég get svo sannarlega gert mig skiljanlega. Eitt stórt klapp fyrir því!
Það er samt stórskemmtilegur munur á því hvernig konur og karlar tala. Tók best eftir því í skólanum um daginn þegar við vorum að hlusta á hvernig tölurnar eru sagðar, þá kom til skiptis kona og karl. Tilfinningin sem ég fæ þegar karlar tala ítölsku er svona lúmskt sjarmerandi en konurnar eru svo gribbulegar! Ég finn bara til í eyrunum, það er svona eins og þær séu alltaf að væla, tuða eða að skamma.

Það er samt eitt sem ég mun seint eða aldrei ná hér og það er bæði gangandi og bílaumferð. Ég er ALLTAF að labba á fólk eða það að labba á mig, það er svona eins og ég sé ósýnileg, fólk labbar stundum bara yfir mig! Ég reyni að beygja frá öllum en það virðist ekki ganga, það eru greinilega einhverja umferðareglur hér sem við Íslendingar þekkjum ekki.

Ég er líka ennþá að melta það að "fjölskyldan mín" hér er rík og samfélagið sem þau lifa í er samfélag ríkra foreldra og krakka.
-Svona til að byrja með þá spurði Mirco mig um daginn hvort ég hefði séð antík Rolex úrið hans. Hvað ætli það hafi kostað?
-Stelpan átti afmæli um daginn og hún fékk Nintendo DS og tvo leiki í afmælisgjöf. Nota Bene, hún er 6 ára.
-Afmælisveislan var haldin í sal þar sem allt var tilbúið, rennibrautir og klifurkastalar. Boðið var upp blöðru fígúrur og andlitsmálningu
-Hún fékk Nintendo Wii í afmælisgjöf frá BEKKNUM SÍNUM! Hvað er það?? Ég hata reyndar ekkert þessa gjöf, ég nota hana töluvert meira heldur en hún þar sem hún hefur ekki þolinmæði í 20 mínútna langan tennisleik!
Ég mun samt sennilega seint ná uppí þetta.

En síðan ég kom hingað þá hef ég oft blótað krakkanum, þolinmæðin mín er oft alveg afskaplega lítil og ég bölva sjálfri mér í sand og ösku fyrir að hafa valið þetta starf. En ef maður horfi framhjá öllu því sem pirrar mann og er virkilega opin fyrir öllu þá get ég séð hvað stelpan er mikill gullmoli. Í haust var hún greinilega ný búin að læra orðið beautiful og notaði hún það óspart, nýjasta nýtt er hinsvegar o my goodness og hún er svo ægilega krúttleg þegar hún segir þetta. Hún er líka alveg virkilega skörp, við vorum í leigubíl um daginn og bílstjórinn var að tala í símann og hún spurði mig "Ebba, er ekki virkilega hættulegt að keyra og tala í símann?" ég játaði því en benti henni á handfrjálsa búnaðinn. En þá fór hún að tala um pabba sinn sem gæti sko talað í símann, borðað, drukkið og keyrt bílinn og hann væri sko ekkert hættulegur. Nefndi það líka að hann hafi einu sinni borað í nefið sem hann hefði ekki átt að gera, en hún mætti alveg gera það því hún væri bara krakki en ekki hann.

Bjarni skellti sér í heimsókn um síðustu helgi en hann er búsettur á Spáni þessa mánuðina. Það var mjög gott og gaman að fá hann því ég fór þá aftur að horfa á borgina með túrista augum. Skelltum okkur á vísinda og tækni safn Da Vinci, tók okkur ekki nema 3 tíma að komast í gegnum það og heilinn á mér var vægast sagt orðinn soðinn af upplýsingaflæði. Skelltum okkur líka upp á Duomo sem ég hef ætlað að gera heillengi og var vægast sagt geðveikt að sjá ofan á borgina, ég ætla mér aftur í vor þegar veðrið er orðið betra. Sögur segja víst að maður eigi að geta séð alpana þaðan!
Sennilega hápunktar helgarinnar voru þegar við skelltum okkur á fótboltaleik á San Siro, Inter-Fiorentina. Stemningin á vellinum var vægast sagt gríðarleg og var ekki leiðinlegt að sjá allar þessar fótboltabullur syngja hástöfum allan tímann þaulæfða söngva. Fórum líka á Placebo tónleika og ég var næstum með gæsahúð allan tímann, hann er svo góður söngvari. Það var frjáls sætaskipan þar svo við fengum okkur sæti frekar ofarlega og nutum bara sýningarinnar.

Annars er jólaskapið svona við það að detta inn, hér er jólatréið komið upp og stelpan spilar jólalög við hvert tækifæri en það verður að segjast eins og er að það er ekki mjög jólalegt hér. Blautt og dimmt og enginn snjór. Verður ennþá minna jólalegra þegar ég hendi mér yfir til spánar í meiri hita. Gotta love it!

Og fyrir þá sem eru ekki með facebook þá getið þið séð myndirnar mínar á www.flickr.com/photos/ebbakaren

Þangað til næst

Nóvember genginn í garð

Nóvember er genginn í garð í Ítalíuveldi og því fylgir enn meiri kuldi. Síðast talaði ég um kulda en það er bara ekki nærri því sambærilegt eins og núna, þetta er ekkert Ísland en mig langar bara að vera í leggings og kjól og gollu. Það gengur víst ekki alveg svo ég fjárfesti í húfu og vettlingum og er núna að leita að einhverjum gourmet stígvélum. Mamma gerði nú grín af mér um daginn þegar ég sagðist vera að leita að stíbbum, henni fannst það ekki passa við mig þar sem ég vildi gjarnan bara fara í Kawasaki skónum mínum í snjónum heima. Kawasaki gengur bara ekki hér ef þú vilt lúkka vel, er stödd í tískuhöfuðborginni og það verður maður að vera "up to date"!

Það sem er svo skemmtilega öðruvísi við að búa hér er það að ég labba allt, tek metró/strætó og labba oft dágóðar vegalengdir og þá fylgir að þurfa að nota regnhlíf þegar það rignir. Regnhlíf er bara mér hálf óskiljanlegt fyrirbæri, ég hef aldrei vanist að nota regnhlíf svo ég er ekki alveg með notkunina á hreinu. Ég er alltaf næstum því búin að flækja mig í ljósastaurum, flækjast í næstu regnhlíf við hliðina eða (og það besta) að detta um hana þegar hún er lokuð.
Lenti í hrikalega vandræðalegu atviki um daginn, var búin að loka henni og var á leið inní sporvagn þegar ég hálfgert hryn inní sporvagninn og datt svona næstum því í kjöltuna á fjallmyndarlegum ítölskum strák. Þetta virkaði því miður ekki sem pikk up lína svo ég roðnaði sennilega meira en ég hef nokkurntímann roðnað og kom mér þægilega fyrir aftast í sporvagninum.

Annað sem ég er enn að venjast og það er að hafa þernu inn á heimilinu. Málin standa nefninlega svo að þernan sem við vorum með, hún Sharmela, er hætt og við komin með nýja í staðin. Þá áttaði ég mig á því hvað þernur eru bara algjört núll og nix fyrir þessu fólki, hún er búin að búa inná þeim í 6 mánuði og svo hættir hún og þá er bara sagt "ciao" og henni næstum hent út. Mér líkaði mjög vel við hana og við gátum spjallað tímunum saman og hún var orðin vinkona mín. Svo kom fyrir 2 dögum hún Fanny frá Filippseyjum, sem tekur starfi sínu mjög alvarlega því núna þarf ég ekki einu sinni að hella vatninu í glasið mitt! Mamma þú átt erfitt verk fyrir höndum þegar ég kem heim !
En í öllu þessu standi þegar Sharmela var að hætta og Fanny að byrja þá fékk ég loksins á hreint hvað starf mitt hér er. Er búin að vera í einhverjum vafa þar sem þau hafa tekið upp á því að taka stelpuna með sér í vinnuna ef þernan fór veik heim, ég stóð eftir og svona "hvað í fjandanum er ég eiginlega að gera hér".
En í starfi þernunnar felst: Fyrst að hugsa um stelpuna og svo þrífa húsið. Þannig tæknilega séð er ég bara nýr fjölskyldumeðlimur sem þarf að tala ensku og hjálpa stelpunni með ensku heimavinnunna.

Um daginn má segja að ég hafi átt ansi viðburðarríkan dag, ég og Rebecca áttum að hittast kl 12 hjá Duomo sem varð svolítið ruglingslegt þar sem klukkunni var breytt og við fórum aftur um 1 klukkustund. Eftir smá ruglingslegar mínútur þá fór ég niður á Duomo (dómkirkjan) og þar var bókstaflega allt stappað af fólki. Þá var víst einhver minningarathöfn fyrir einhvern mann sem var verið að taka í dýrlingatölu og ég er ekki frá því nema að páfinn hafi verið á staðnum! Sá dauðakallinn í glerkistu og fullt af köllum með fjöðurhatta.

Á eftir þessu lentum við fyrir algjöra tilviljun á pasta hátið, Barilla pastað var með hátið og þar voru fjölmargir básar með mismunandi pastaréttum. Það er alveg klárt mál að ítalir elska pastað sitt. Skelltum okkur svo í einn almenningsgarð þar sem við hittum svertingja að slá á bongótrommur, dópista að reyna að syngja og spila á gítar og svertingja bera á ofan að spila körfubolta. Og svo til að enda góðan dag þá sáum við stelpur sýna Riverdance sem var sennilega uppáhaldið mitt þegar ég var yngri, fékk alltaf lánaða spólu hjá Höddu frænku og gat horft á hana tímunum saman.
Ég verð bara að segja það að ég er nokkuð viss um að ég myndi aldrei lenda í þessu á Íslandi!

En svona að skólamálum þá var ég næstum því búin að hætta í ítölskuskólanum mínum í gær. Ég öskraði innan með mér að þessi "helvítis skóli gæti bara farið til fjandans og ég væri að sóa peningunum mínum".
Málið er að kennarinn talar bara ítölsku, hún kann ensku en reynir með fremsta megni að nota ekki ensku. Svo í gær var hún að spurja mig að einhverju sem ég skildi bara ekki og ég sagði við hana voðalega kurteislega á ensku að ég gæti bara ómögulega skilið það sem hún væri að segja þá flissaði hún svona nett og hélt bara áfram að babbla á ítölsku. Eftir nokkrar tilraunir mínar í að fá hana til að útskýra þá flissaði hún bara meira og snéri sér að næsta nemanda. Seriously þá var ég alveg að missa þolinmæðina og langaði bara að slá hana utanundir. En sem betur fer í dag í skólanum var reiðin runnin af mér og ég komst í gegnum tíman án þess að hugsa um ofbeldi!

Daður er e-ð sem ítalir eru alveg sér á báti með. Þegar maður fer á djammið þá hafa þeir allavega tíma í að spurja um nafn, hvaðan maður er, hvað maður er að gera og þess háttar. Þeir sýna því áhuga sem þú ert að segja og hvað þú ert að gera í lífinu. En daður var algjörlega tekið á nýtt level í dag. Fór í Footlocker til að leita að góðum strigaskóm og ég spurði afgreiðslumanninn hvort hann skildi ensku sem hann játaði. Svo hann fór að forvitnast hvaðan ég væri og hvað ég væri að gera á Ítalíu og ég sá strax eftir því að hafa sagt honum að ég væri búsétt hér. Eftir 5 mínútna samtal spurði hann mig hvort ég væri að vinna um kvöldið og hvort ég vildi koma með honum á skemmtistað. Ég reyndi eftir fremasta megni að koma mér útúr þessu og ákvað svo í þokkabót ekki að kaupa skóna (enda var ég að reyna að drífa mig út úr búðinni), sagði að ég þyrfti að skoða þetta aðeins betur og myndi sennilega koma aftur á morgun eða hinn að kaupa. Þá tjáði hann mér það að hann ætlaði að skipta vöktunum svo hann myndi vera að vinna þessa tvo daga.
Þessir Ítalir...

Þeir eru vægast sagt stórmerkilegir, þeir vita alveg mjög takmarkað um Ísland og þá sérstaklega hús faðir minn hann Mirco. Í hvert skipti við matarborðið mig spyr hann fjöldan allan af spurningum um t.d hvort það sé pasta á Íslandi, kál, tómatar, pestó, basilikka og hann var e-ð að velta fyrir sér snjóhúsum um daginn!
Ég gaf honum bók um Ísland á ítölsku en samt gleymir hann alltaf að þú getur ekki keyrt þangað!
Það er samt mjög gaman að vera Íslendingur hér, þegar ég segi ameríkönum að ég sé frá Íslandi þá er undantekningalaust sagt "wow i've never met an icelandic person before, omygod this is amazing". Mér líður eins og ég sé einhvern forngrísk gyðja sem ætti að vera löngu útdauð, svo merkilegur er íslendingurinn hér!


En núna eru bara 40 something dagar í að ég fer til Spánar og vægast sagt þá hlakka ég aðeins of mikið til.
Læt þetta duga af ítölskum fréttum í bili

Ebba

kalt á Ítalíu

Ítalía er formlega orðin köld. Hér er kápan tekin upp, klútur um hálsinn og ég þarf að fara að fara að fjáfesta í húfu og vettlingum. Get ekki sagt að ég taki þessu veðri fagnandi þar sem ég eiginlega missti af góða veðrinu þegar það var hér.
Hversu slæmt er það að hafa verið í einn og hálfan mánuð í 25 stiga hita, sól og hafa fengið í mesta lagi 3 nýjar freknur. En Milanó er að mínu mati ekki "tan borg", það er varla grænn blettur hér nema almenningsgarður troðfullur af ferðamönnum. Langar ekkert að tana þar sem kínverjar með grímur útaf svínaflensunni eru að taka myndir af mér.

Er búin að vera í skóla núna í 3 vikur þar sem ég samviskusamlega stunda nám í ítölsku. Mæti þrisvar í viku, tvo tíma í senn og er alveg voðalega fínt að hafa e-ð að gera á daginn. En málið er að í þessa tvo tíma þá skil ég kannski um það bil 15 mínútur. Kennarinn talar bara ítölsku, og talar mikið, svo ef við sýnum engin viðbrögð þá spyr hún "capito?" og við að sjálfögðu segjum nei, þá reynir hún að útskýra betur en bara á ítölsku. Þannig eftir þessa tvo tíma þá er maður kominn með vægan hausverk og langar helst heim að leggja sig. En þetta skilar sér, orðin festast smám saman í minninu og áður en ég veit af verð ég altalandi. Núna skil ég ótrúlega mikið en svara oftast á ensku eða í tveggja orða setningum á ítölsku. Svona utan við það að ég held að það sé málfræðilega rangt að hafa bara tvo orð í setningu.

Í undanförnum bloggum hef ég reynt að setja upp mynd af lífi mínu hér, reyni að segja frá öllu sem ég sé og heyri og hvernig upplifun það er.
En mér finnst ég ætti líka að segja ykkur hvernig tilfinning það er að vera hér. Flesta daga er ég alveg himinlifandi að hafa drifið mig af stað og flutt erlendis, þetta er alveg mögnuð upplifun og ég kem alveg þvílíkt veraldarvön heim. En það koma alveg dagar þar sem ég efast um ákvörðun mína, það er mjög erfitt að hafa engan og búa inná fólki sem maður varla þekkir. Undanfarna daga hef ég lítið verið að fara út, tók þá ákvörðun að spara pening og minnka næturlífið aðeins. En því fylgir auðvitað að ég er meira ein á kvöldin og hitti fólk sjaldnar og þá fer maður að hugsa heim, þá koma efasemdirnar.
Er samt ekki að segja að ég sé að gefast upp, þetta er alls ekkert þannig, en þetta hefur hljómar hingað til sem algjör sældarlíf og vildi ég bara segja frá því að efasemdir eiga sér stað.
Dreymdi um daginn að ég hafi ákveðið að fara heim og um leið og ég var komin heim og settist við eldhús borðið heima í sveitinni þá sá ég strax eftir því að hafa gefist upp.
Ég er yfirmig ánægð að vera stödd hér núna og ég veit að þetta tímabil er bara gott fyrir mig. Fínt að flytja burt, kynnast nýju fólki og nýrri menningu og hlaða batteríin fyrir háskólanám næsta haust.

Var að lesa eldgamalt blogg sem ég skrifaði á annarri bloggsíðu, þar var ég að skrifa um hvað ég væri með mikla útþrá og hvað ég þráði að komast eitthvert til útlandi að upplifa e-ð nýtt. Satt best að segja, á þeim tímapunkti sem ég skrifaði þetta blogg, þá bjóst ég alls ekki við því að ég myndi enda í Mílanó sem barnapía.
Kannski líka þar sem ég hef sjaldnast verið þekkt fyrir að vera barna dýrkandi og hafa margir verið undrandi á þessari ákvörðun minni. En ég sé ekki eftir þessu og ég mun bara kunna betur að meta Ísland þegar ég kem aftur heim. Þið þarna úti, drífið ykkur út að prófa e-ð nýtt. Það er geðveikt!

En aftur að ítalskri menningu. Sjónvarpsefnið, ó elsku sjónvarpsefni. Ítalir ættu skilið óskarsverðlaun. Auglýsingarnar eru alveg kostulegar og er ein í alveg sérstöku uppáhaldi. 4 framhaldsskóla krakkar koma hoppandi útum dyrnar á skólanum, yfir sig ánægð, einn strákur og ein stelpa detta í smá sleik (vá kemur á óvart) og leiðast svo í burtu. Hér er verið að auglýsa símafyrirtæki.
Þau eru líka með sjónvarpsþátt sem er samblanda af Bachelorette, So you think you can dance og American Idol. Ein gella, fullt af gaurum og þeir eru alltaf að syngja og dansa. Dómarar dæma og segja stelpunni sína skoðun og hún metur svo það sem dómararnir segja um dans og söng frammistöðu þeirra og notar það til að hjálpa sér að velja hinn eina rétta.
Og ég sem hélt að Bachelorette væri sick þáttur.

Eitt sem ég gleymdi að nefna síðast. Á hverjum degi labba ég framhjá kirkju.
Kirkjurnar hér eru ekki mikilfenglegar og girtar af eða byggingar sem maður tekur eftir. Oftast eru þetta bara venjuleg hús, kannski aðeins stærri en hin, en falla bara inní umhverfið. Kirkjan sem ég labba framhjá er alveg upp við aðalumferðargötuna og er bara næstum á gangstéttinni. Á mínu tímabili hér hef ég labbað í gegnum (bókstaflega) messur, jarðafarir og brúðkaup. Það er frekar sérstakt að vera að labba í sínu mesta sakleysi í ræktina eða í búðir og maður þarf svona að sviga framhjá fólkinu í kringum líkbílinn eða gestunum að kasta hrísgrjónum yfir brúðhjónin. Næst ætla ég að elta gestina í veisluna og fá kökur!

En svona að tilkynningahliðinni.
Ég hef ákveðið að koma ekki til Íslands um jólin, ég held til Spánar þann 23.des og mun ég eyða jólunum með Herrera systkinunum. Ég verð að segja að ég hlakka alveg skuggalega mikið til, verður skrýtið að eyða ekki jólunum með fjölskyldunni, en þetta verður bara skemmtileg upplifun.

enough for now...
þangað til næst

xoxo

Einn mánuður

Núna er liðinn mánuður síðan ég fyrst steig fæti hér á Ítalíu. Mánuður er mikið en ég er samt bara búin með 1/9!

Dagarnir hér líða bara áfram. Vakna, ræktin, hádegismatur, dund eftir hádegi og svo passa fram að kvöldmat. Byrja svo í skóla á morgun, 3 daga vikunnar, 2 tíma í hvert sinn.
Þetta mætti reyndar alveg líða aðeins hraðar en ég er að vinna í því að finna mér kannski e-ð dansnámskeið eða ljósmyndanámskeið. Það er samt ekkert auðveldast í heimi að "joina" þannig, því allt kostar pening hér. Mikinn pening.
Það er alveg óþolandi að fara í fatabúðir, jakki kannski á 70 evrur og maður svona "æi oooh afhverju er evran ekki 80 kr"
Fór inn á naglasnyrtistofu um daginn og ætlaði að forvitnast hvað gervineglur kostuðu. 120 evrur takk fyrir og góðan daginn. You can do the math!

Ég elska menninguna hér, elska göturnar og elska búðirnar. Þegar ég fer út úr húsinu mínu þá þarf ég að labba ca 5 metra til að komast að ávaxta og grænmetissala, hann er með dýrindis ávexti og ég fékk mér plómu hjá honum á stærð við epli! Á leið út á götuhorn er hársnyrtistofa, á götuhorninu er risa snyrtivörubúð, þar við hliðina á er skóbúð (og btw allir skórnir eru á 30 evrur) og þar á eftir kemur önnur hársnyrtistofa.
Þetta sé ég í hvert skipti sem ég fer út á strætóstoppistöð. Við stoppistöðina er blómasali, krúttlegur 70 ára kall sem er alltaf að reyna að selja mér blóm, einn daginn mun ég kaupa af honum. Þar er líka uppáhalds kínverjinn minn, þar get ég keypt "handbags" og skó á 10-15 evrur.

Hér er mikið af jakkafataköllum og konum í Prada pinnahælum. Þetta fólk er engan veginn of fínt fyrir strætó, metro eða sporvagn. Hér ferðast allir á þann hátt, meira segja fullt af jakkafataköllum á vespum eða reiðhjólum, það er alveg best! Þeir þurfa ekkert fancy bíla, enda er bara fáranlegt að vera á bíl hér.
Varð vitni af einu svakalegu um daginn, þar sem bíl hafði verið lagt tímabundið í "drive in" og kom að því að annar bíll þurfti að komast út. Kallinn lá á flautunni alveg brjálaður, greinilega að verða of seinn í vinnuna. Ég semsagt sé þetta frá hlið, þar af leiðandi sé ég ekki bílinn sem er að reyna að komast út. Nokkrum sekúntum seinna (já sekúntum) var maðurinn algjörlega búinn að missa þolinmæðina og keyrir lengra út og keyrir á bílinn sem var lagt í innkeyrsluna. Svo byrjar hann svona að juða rétt í bílnum, reyna að ýta honum létt út á götuna. Ég fékk nett áfall þegar ég sá að maðurinn var að keyra glænýjan Audi, honum var svo slétt sama um bílinn sinn, slétt sama um nokkrar rispur og fannst ekkert aðþví að keyra bara á!
Þetta varð til þess að ég fór að skoða bílana aðeins betur og ég get svo svarið það, hver einasti bíll hér (hvort sem það er Ferrari, Benz eða Corolla) er með rispur á hliðunum.

Hér er einnig mjög mikið af betlurum, sumir vilja kalla sig götu/strætó listamenn, en þeir eru bara að betla. Ég tek alltaf sporvagn 27 þegar ég fer í ræktina eða niðrí bæ og það er frekar stór og fjölmennur sporvagn, sérstaklega klukkan 8 á morgnana, ég sé mikið sama fólkið á leið í skólann eða vinnu. Það er alltaf sami maðurinn sem kemur í sporvagninn og spilar á harmonikku og betlar pening, ég er búin að fara fjórum sinnum í dag og hann var þar í öll skiptin. Ekki nóg með það að hann er alveg vandræðalega lélegur heldur spilar hann alltaf sama lagið, aftur og aftur og aftur. Ég hef aldrei séð einhvern gefa honum pening, spurning um að fara á einhverja leið og í annan sporvagn ? Já eða selja harmonikkuna, hún kostar alveg hellings!
Þessir betlarar eru samt rosa erfiðir, maður getur ekki annað en vorkennt manninum sem er ekki með neina fótleggi, en ef ég gef honum pening þá verð ég að gefa hinum líka. Svo ég ákvað bara að gefa aldrei neinum, vera ógeðslega kalda leiðinlega stelpan sem lítur undan þegar betlarar eru á næsta leiti.

Það eru líka svertingjar í hópum niðrí bæ að selja "handmade" armbönd, labba upp að manni, bjóða manni á 1 evru og ef maður neitar þá segja þeir "it's for free" og leggja þetta á öxllina á manni. Ef maður þiggur þetta, þá eltar þeir mann endlaust og biðja um bara 1 evru! Sumir hafa meira segja verið svo djarfir að spurja hvort mig vantaði ekki eiginmann, eða hvort ég vildi ekki borga með einum kossi!

Það er ótrúlega skrýtið að vera ekki lengur túristi hér, ég er farin að leiðbeina öðrum túristum í strætó, hvenær þeir eigi að fara út og þess háttar. Það er ótrúlega gaman að vera kominn inní hlutina og vera bara hluti af lífinu hér. Ég heilsa konunum í ræktinni eins og þær séu bara vinkonur og fólk man eftir mér, það er mjög gaman.
Það er aðeins undir einum kringumstæðum sem ég er til í að vera villt, vera túristi og þurfa á hjálp að halda. Það er þegar lögreglumenn eða hermenn eru nálægt, lögreglumennirnir hér eru amazingly hot og ég er alltaf svona "ætti ég að spila mig tognaða á ökkla, villta og þarf að komast heim?". Og hermennirnir allir ungir og sætir og labba um með risa riffla, ég er að mana mig uppí það að fá mynd af mér með þeim.

En af mér er annars allt gott að frétta, vinnan er ekki mikil en getur verið erfið þegar hún stendur yfir. Stelpan sem ég er að passa er frek og ofdekruð sem vill stjórna öllu. Það erfiðasta er það að hún er mjög gáfuð, talar mjög góða ensku og er rosalega meðvituð og þá vill oft gleymast að hún er bara 5 ára krakki (6 ára í nóvember). Hún vill ekki fara í sturtu, ekki tannbursta sig og það er e-ð thing að vilja ekki þvo sér um hendurnar. Fyrstu dagana var ég mikið bara að leika við hana, fylgdi þessu ekki mikil ábyrgð, en núna síðustu 1 og hálfa viku voru foreldrarnir í burtu. Þá þurfti maður að vera strangur, láta hana borða og setja hana í sturtu og þess háttar, og upp frá því þá hefur henni líkað minna við mig. Hún veit að hún kemst ekki upp með neitt kjaftæði hjá mér og spyr mig sjaldnast um leyfi um e-ð, fer alltaf til Sharmelu, þernunnar. En án mín getur hún svo sannlega ekki verið, hún vill alltaf leika við mig og hafa mig hjá sér.
En maður verður bara að vera þolinmóður þegar hún stendur á orginu og neitar að þvo sér um hárið, þýðir ekkert að láta þetta fara í taugarnar á sér.

Mér líður mjög vel á heimilinu, foreldrarnir eru algjörir gullmolar og kallinn er bara fyndinn. Stundum mætti samt halda að ég væri með heimþrá á háustigi því ég er alltaf að sjá tvífara, það er alltaf einhver sem minnir mig á einhvern heima. Það er bara farið að verða vandræðalegt að sjá Jón Heiðar Sig, Ágúst Örn, Önnu Elvíru eða einhvern sem ég þekki úti á götu. Ég fer ósjálfrátt að stara, vandræðalega mikið og fólk heldur ábyggilega að ég sé e-ð geðveik.

Og Viðar bróðir bað mig um að setja myndir hér, það er bara svo fjandi mikið vesen og ég nenni því ekki. Svo Viðar, fáðu þér facebook eða fáðu að sjá hjá mömmu eða Heiðdísi :)

Vona að þetta séu nógu ásættanlegar fréttir frá Mílanó

Þangað til næst

Ebba Karen

Allt að komast í réttar skorður

Já, líf mitt er að komast í nokkurnveginn fastar skorður hér í Mílanó. Stelpan er byrjuð í skólanum og ég hef því tíma fyrir sjálfa mig frá því ég vakna þangað til á 4 á daginn. Hingað til hef ég nýtt þann tíma í að fara í ræktina, í búðir, njóta sólar (eða bleytu) eða í ræktina. Hljómar allt saman einstaklega spennandi ekki satt?
Málið er að þetta er alveg mjög ljúft og verður enn betra þegar ég byrja svo í skólanum líka, en ég tel einmitt niður dagana þangað til. Það eru tveir tímar á dag þrisvar sinnum í viku og ég er orðin alveg skuggalega spennt að læra þetta tungumál, ég er nú samt orðin nokkuð sleip, næ oftast einhverju samhengi og get gubbað útúr mér nokkrum vel völdum orðum. Sjaldnast þó í heilli setningu sem meikar sens en að bjóða góðan dag og góða nótt er agalegt sport hjá mér!
Ég er líka orðin nokkuð góð í að rata, eða svona meira að ég þarf ekki að hugsa eins mikið þegar ég tek strætó eða metro eða sporvagn. Ef ég þarf að fara eitthvert, sem er oftast niðrí center þá stekk ég bara út á stoppistöð og tek strætó. Án þess að hugsa! mjög ljúft, er næstum eins og innfædd hérna heh!
Er einmitt loksins komin í rækt og það er bara að bjarga lífi mínu. Það má samt með sanni segja að ég sé "to big for the gym" og má túlka það á tvo vegu. Ég er sennilega með þeim breiðari þarna inni þar sem hver einasta gella er 0% fita, og svo eru ekki nógu þung lóð þarna fyrir mig. Vandræðalegt eða? En það er í lagi, þetta er glæný stöð og þau eru að fá fleiri lóð og fleiri tæki heh.

Ítalir eru svo fyndnir, ég næ bara ekki uppí það.
Í fyrsta lagi: Þeir sofa bara með lak, því það er ennþá svo heitt. Hafið þið ekki farið á hótel á sólarströnd og það er alltaf búið að pikkfesta lakið svo maður þarf losa það svona undan dýnunni til að komast undir? Svoleiðis er þetta á mínu heimili og ég er alveg glötuð í því að búa um rúmið með þetta drasl. Lendi líka vandræðalega oft í því að vakna um miðja nótt og vera hálf föst í lakinu sem er fast við dýnuna.

Í öðru lagi: Þetta thing með að kyssa einu sinni á hvora á kinn þegar það er verið að kveðja, það er ekki alveg minn tebolli. Aupair stelpurnar sem ég hef kynnst hérna þær gera þetta allar og það fer alveg lúmskt í taugarnar á mér hah. Ég er ekki alveg týpan í þessar atlotur á almannafæri.
Lenti samt í því albesta í dag þegar einkaþjálfarinn var að kveðja mig, ég var alveg löööðrandi sveitt en hún tók samt utan um mig og kyssti mig einu sinni á hvora kinn.

í þriðja lagi: Það eru allir þessir óteljandi sleikar sem ég hef séð hérna, það eru allir í sleik, alltaf. Í metro, í strætó, í búðinni, í strætó skýlinu. Og þetta eru ekkert venjulegir sleikar, þetta er bara SSS (SúperSkemmtistaðaSleikur).

í fjórða lagi: Umferðin! Hér hefur enginn þolinmæði, ef þú ert ekki helst farinn yfir á gulu þá er flautað. Ef bíllinn á undan þarf að stoppa fyrir gangandi vegfaranda (nota bene á GANGBRAUT) þá er flautað. Ekki nóg með það að göturnar hérna eru þær ósléttustu í bransanum. Fæstar þeirra malbikaðar, alltaf svona múrsteina dæmi, eða sporbrautir útum allt sem er verið að keyra ofan á. Íslendingar að kvarta yfir lélegum götum, pff Ísland hvað?!

En svona svo ég sé ekki bara endalaust að gagnrýna þessar elskur þá hafa þeir auðvitað sýnar jákvæðu hliðar. Það eru allir kurteisir, biðjast afsökunar, bjóða góðan daginn, eru til í að hjálpa manni og svo framvegis. Sumir eru reyndar aðeins of nice. Var á röltinu um daginn og mætti manni á aldur við pabba minn, sem stoppaði mig og spurði hvort ég byggi hér og hvort ég væri til í að fara á deit með honum. What the hell? Aldrei myndi maður lenda í þessu á íslandi.
Og að sjálfsögðu það allra jákvæðasta við Mílanó eru allar búðirnar hérna. Önnurhver búð er fatabúð, önnur hver búð af því er skóbúð! Ofan á þetta allt saman eru allir götusalarnir með ótrúlega mikið af flottum skóm á svona 5 evrur! Og ekki má gleyma öllu gómsætu kaffihúsunum hérna, alltaf opin kl 8 á morgnana með girnilegu brauðunum sínum og croissant.

En nóg af fréttum í bili

þangað til næst

Ebba Karen

Nýjustu fréttir

Held að það sé kominn tími á blogg nr.2 héðan úr Mílanó. Fyrstu dagarnir hér hafa verið vægast sagt rólegir. Stelpan er ekki byrjuð í skólanum og þarf ég því að vera heima allan daginn að passa. Ég vakna fæ mér að borða og tek upp góða bók að lesa eða kíki jafnvel á mbl svona til að fylgjast með hvað er að gerast heima. Svo tekur við smá session í því að lita, pússla, fara í prinsessuleik, telja peninga eða horfa á teiknimyndir.
Hljómar rosalega sem ljúft líf en ég hreinlega get ekki beðið eftir að hún byrji í skólanum svo ég geti farið að gera eitthvað á daginn.
Hún byrjar í skólanum í næstu viku og ég byrja svo í ítölsku skóla 1.október.

Ég gleymdi að segja frá 2 öðrum fjölskyldumeðlimum í síðasta bloggi, það er hundurinn Oliver og "þernan" hún Sharmela. Ég fékk að vita það áður en ég kom út að Mariavittora elskaði Oliver, hann væri eins og litli bróðir hennar og ég þyrfti semsagt að vera vön hundum. Ekki mikið mál fyrir mig, en það sem ég vorkenni greyið hundinum. Ég er að segja ykkur það, hann hatar stelpuna. Hún má ekki koma við hann þá byrjar hann að urra eða gelta eða hleypur hreinlega í burtu, og svo segir hún "ooo he loves me". Ég get ekki annað en hlegið að þessu, því hundurinn elskar mig . Án gríns, hann vill alltaf vera í mínu herbergi, liggja í mínu rúmi og hann eltir mig um allt húsið.
Sharmela ("þernan") á heima hér, hún sér um að þrífa og elda og ég verð að segja að það er frekar skrýtið að þurfa ekki að gera neitt svoleiðis, þar sem þetta er oftast í verkahring Aupair. Ég reyndar sé nú um að búa um mitt eigið rúm og halda herberginu þokkalega hreinu, en hún skúrar og þrífur glugga og þess háttar.

Ég hef farið núna í nokkur skipti út að hlaupa, en þá hefur Sharmela einmitt litið eftir Mariuvittoriu á meðan. Ég held samt að ég hlaupi ekkert mjög mikið hérna. Einn daginn á ég eftir að detta niður dauð úr mengun og vondri lykt, það er ekkert eðilegt hvað sum hverfin hérna lykta illa. Um daginn þegar ég var að hlaupa þá fann ég svo til í lungunum, ég var bara að anda að mér einhverri bensín drullu og ég var bara gráti nær (for real).

Svona það markverðasta samt sem ég hef gert nú þegar var að ég skellti mér í bíó á mánudaginn, Ice Age 3. Ég get því miður ekki sagt til um hvort myndin var skemmtileg, því ég skildi ekki neitt hvað var í gangi. Var sjálfsögðu góðmennskan uppmáluð og fór með stelpunni á myndina með ítölsku tali, þótt hún hefði eflaust skilið hvað væri í gangi ef hún væri á ensku. Gat hlegið einstöku sinnum að litla kvikindu sem er alltaf að elta hnetuna (er þetta ekki annars hneta?) annars dottaði ég svona af og til.

Svo, mér til mikillar gleði, kom vinkona Mariuvittoriu í heimsókn og hún er með aupair frá Noregi sem kom einmitt líka í heimsókn. Það var mjög ánægjulegt að hitta einhvern á svipuðum aldri og ég hún bauð mér út á lífið, á miðvikudegi. Það var svona international night, alveg stappað af fólki allsstaðar að úr heiminum. Fékk svona nettan Rhodos fíling, ekki leiðinlegt að fara út ekki í leggings, ekki í jakka og grillast úr hita utandyra. Þarna dönsuðu allir, það var enginn sem var leiðinlega týpan og stóð fyrir utan dansgólfið og horfði á hina skemmta sér

Íbúðin sem ég bý í er samt alveg lygilega fyndin. Það eru ekki neinir lásar á hurðunum svo þegar ég er í sturtu eða klósettinu þá varð ég bara að hafa ólæst. Það er reyndar alltílagi þar sem ég er með sér baðhergi útaf fyrir mig. Ég hins vegar stelst í sturtu í öðru baðherbergi því þar er gufa, þaaaað er svo nice. Sérstaklega eftir að ég er búin að fara út að hlaupa að skella sér í smá gufubað.
Ítalir eru samt alveg magnaðir þegar þeir tala, það er ekki séns að ég geti áttað mig á því hvort þau séu glöð eða reið. Það tala allir svo hátt og ákveðið og með mikilli innlifun, þau gætu verið að segja sögu frá því þegar þau sáu fyndna mynd í bíó en það hljómar eins og þau séu reið. Alveg magnað.
Fór svo í dag með þeim að skoða skólann hennar Mariuvittoriu, þar voru saman komnar konur á aldrinum 30-50, allar með handbag (að sjálfsögðu italian design), allar alveg lygilega mjóar og ofan á það tanaðar.
Ítölsk mannamót eru með þeim fyndnari, alllir kyssa alla og knúsa alla og eru alveg ægilega glaðir að sjá hvort annað. Svo er slúðrað eins og ég veit ekki hvað, ég skil reyndar ekki alveg hvað þau eru að segja, en ég get pikkað út eitt og eitt orð og ég átta mig alveg á því að það er gossip time af bestu gerð!

Svo fannst mér alveg best þegar Mirco spurði mig hvort hann gæti keyrt til Íslands, hann hafði í alvörunni ekki hugmynd um hvar Ísland væri, og hvað þá að það væri eyja. Svo vorum við að skoða landakort og hann var að leita að Íslandi hjá Rússlandi. Mariavittoria benti um daginn og Antarctica og spurði hvort ég ætti heima þar.
Þessir Ítalir!

En ég er að fara í afmæli í kvöld hjá stelpu sem ég kynntist fyrir 2 dögum, það gæti orðið fróðlegt.

Læt þetta duga af fréttum í bili
endilega verið dugleg að kvitta, svo gaman að vita hverjir eru að fylgjast með manni!

xoxo
Ebba Karen

Fyrsta blogg frá Mílan

Sælir kæru vinir. Nú er ég loksins orðin nettengd hérna í útlandinu og ætli það sé ekki við hæfi að skella inn eins og einni ferðasögu.

Það má með sanni segja að það hafi gengið á með skin og skúrum hjá mér og Völu á þessu ferðalagi. Svona til að byrja alveg á byrjuninni þá fór ég í Landsbankann niðrí bæ til að fá mér evrur, bað um 150 evrur, í einum 50 evru seðli og svo rest í 20 eða 10. Hún hendir í mig peningnum og ég ætla að athuga á leiðinni út hvort þetta sé ekki rétt og byrja: 20-40-60-80-100 og svo 50 evru seðillinn. Núna hugsaði Ebba "Fjandinn hún lét mig bara hafa 100".....
Taldi aftur til að vera alveg viss: 20-40-60-80-100 og svo 50 evru seðillinn. "Æh vá ég trúi ekki að ég þurfi að fara aftur inn til að fá 50 í viðbót"
Svona fyrir þá sem eru skarpir þeir átta sig alveg á því að ég var ekki alveg með talninguna á hreinu og varð líka nett vandræðaleg þegar gjaldkerinn taldi peninginn aftur fyrir mig.

En ok, hvað um það. Næsti áfangastaður var Keflavík þar sem mín mátti gjöra svo vel og borga fyrir 7 kíló í yfirvigt. Pabbi kallinn pungaði út fyrir því en ég vissi að mín beið annað eins þegar ég myndi lenda í London. Sem er einmitt næsta mál á dagskrá. Lentum aaðeins á eftir áætlun í London, sem var ekki alveg nógu sniðugt þar sem tíminn fyrir næsta flug var ekkert rosalega mikill. Auk þess þurftum við að bíða mjög lengi eftir að töskurnar færu á bandið svo ég og Vala vorum orðnar mjög stressaðar. Svitnuðum verulega í lófunum.
Svona til að bæta gráu ofan á svart þá var heljarinnar vesen að vera með yfirvigt hjá Easy Jet, þurfum að fara á information desk og borga þar og fara svo með töskurnar í annað flugfélag því færibandið hjá Easy Jet var bilað.
Á þessum tímapunkti vorum við orðnar mjög svangar, við bara urðum að kaupa okkur e-ð að borða. Hlupum inn á McDonalds og sáum þar á skjá að okkar flug var með statusinn "Boarding". Ég hugsaði ekki neitt annað en "Fokk fokk fokk fokk", reif matinn af afreiðsludömunni og ég og Vala löbbuðum á öðru hundraðinu að hliði 19. Og sem betur fer vorum við á hliði 19 en ekki 95! Okkur til mikillar gleði mátti taka með sér mat inní vélina en okkur ekki til eins mikillar gleði var svona "free seating" þannig að við lentum næstum aftast og ekki við hlið við hlið.

Eftir að við lentum í Milan, tók við hiti og sviti. 26 gráður og 27 kg taska sem ég þurfti að dröslast með í Metro, ekkert neitt ofboðslega gaman en sem betur fer fengum við oft hjálp frá hjálpsömum ítölum. Gáfumst upp á Metro og Strætó og tókum leigubíl til nýja heimilis míns.
Verð nú að viðurkenna að ég var stressuð að hitta nýju "fjölskylduna mína", en þetta gekk allt vel. Við losuðum okkur við dótið og fengum okkur að borða og uppí lest til Róm.

Við vorum í sparnaðarpakkanum og tókum næturlest en ekki með rúmum, heldur bara venjulegum sætum. Mættum í lestina og okkur leist bara nokkuð vel á þetta, ágætis stærð af sætum, mjúk og fín. Vorum með glugga sæti og alles svo þetta lúkkaði allt mjög vel. En auðvitað gat þetta ekki verið svona frábært, við vorum í 6 manna klefa með 4 öðrum ítölskum strákum og þegar það kom að því að sofa þá var það bara ekki fræðilegur möguleiki. Það var hlandlykt í klefanum (sem ég vil meina að fylgdi strákunum), mikil læti í lestinni og það var ekki fræðilegur að koma sér fyrir í sætunum. 8 tíma lestarferð og ég svaf í svona 2 tíma, en það þýddi ekkert að væla yfir því og við byrjuðum að rölta um Róm kl 8 um morguninn. Það byrjaði á að HELLIRIGNA, og ég nota stóra stafi því ég hef án gríns aldrei séð jafn mikla rigningu. Við vorum ekki með neina regnhlíf og urðum alveg gegnvotar en það lagaðist þegar 28 gráðu hitinn og sólin mætti á svæðið, þá urðum við alveg þurrar.
Náðum að skoða meðal annars Vatikanið og Colosseum og ég mun setja myndir inn á facebook við tækfæri.

Næsti áfangastaður var Feneyjar og við ætluðum ekki að spara í þessu tilfelli og keyptum okkur næturlest MEÐ rúmum, sem var algjör lúxus miðað við hina lestarferðina. Mættum kl hálf 6 um morguninn og þá var enginn á ferð, röltum um í algjörri þögn og það var geðveikt! Fundum lítið krúttlegt hótel og gátum ekki beðið eftir að fá það eftir hádegi til að leggja okkur aðeins, vorum svo þreyttar eftir allt ferðalagið.
Mættum á staðinn, fengum lyklana í hendurnar og hlupum uppá herbergi, ég henti mér í sturtu og uppí rúm. Eeeeeen auðvitað gátum við ekki verið svona lengi í paradís, hótel kerlingin bankaði uppá hjá okkur eftir 20 mínútna lögn og sagði við þyrftum að yfirgefa herbergið því það var "overbooked".
Ætlaði að finna annað handa okkur, en allt var fullt. Við ákváðum bara að fara til baka til Milanó og slappa af hjá fjölskyldunni minni.

Fjölskyldan mín samanstendur af Mirco (pabbinn), Barbara (mamman) og litla óargadýrinu Mariavittoria. Hún er 6 ára mjög virk stelpa sem er bara eitt krúttlegasta barn sem ég hef hitt. Hún er í enskum skóla og talar mjög góða ensku, miklu betri ensku en pabbi sinn og hann þarf oft að fá hjálp frá henni.
Ibúðin er mjög fín, allt í mósaíkflísum á gólfinu og óteljandi listaverk og skúlptúrar, þau eiga listasöfn og eru greinilega að taka e-ð með sér heim úr vinnunni heh. Herbergið mitt er rosa rúmgott og fínt og með risastórum fataskáp, ég nota sirka 1/10 af honum. Ætti reyndar ekki að vera í neinum vandræðum með að fylla hann svona miðað við allar fatabúðirnar sem eru hérna.
Maður hefur oft heyrt að Milanó sé tískuborgin og hér sé allt high fashion, ég hugsaði alltaf að þetta væri svoltið mikið ýkjur en guð nei. Fórum rúnt í gær um Mílanó og an gríns, önnur hver búð (og rúmlega það) er Armani Jeans, Armani coffe shop, Jimmi Chu, Gucci, Luis Vitton og hvað sem þetta allt heitir.
Það er líka kirkja á hverju götuhorni og allar byggingarnar eru mjög flottar, með styttum af ljónum og hestum og englum.

Ég fékk að heyra það frá mjög mörgum, eiginlega bara öllum, að ég ætti að passa mig á ítölsku strákunum. Ég tók mig til og skoðaði þá nokkuð gaumgæfilega og ég er búin að komast því að þeir skiptast í 3 hópa. Fyrsti hópurinn eru gömlu kallarnir, sem mér finnst lúmskt krúttlegir en hálf asnalegir líka. Annar hópurinn eru sætu strákarnir sem eru samt svo flaming gay að það er bara vandræðalegt, þeir eru í bleikum magabolum og/eða mjög flegnum bolum með v-hálsmáli. Sá einn sem var flegin niður að nafla. Svo er það síðasti hópurinn og það eru bara mjög sætir strákar en þeir eiga allir, undantekningalaust, kærustur. Það klikkar ekki, ef sætur gaur kemur inní lest, þá er hann með stelpu upp á arminn. Alveg ótrúlegt!

Stelpurnar hérna eru hinsvegar allar eins, allar gellur hvort sem þær eru 20 ára eða 60 ára. Þær reyna allar að vera chicks, í hælum með Gucci tösku (gervi eða ekta) og mjög margar stelpur í magabolum og í buxum sem eru bara svona rétt ofan við lífbeinið. Ég og Vala erum bara eins og útigangs menn við hliðina á þeim, í íþróttabuxum og venjulegum hlýrabol úr Centro !

En já þetta var fyrsta blogg frá Mílanó, og ég vona að þið hafið notið þess að lesa það!

Ég reyni svo að vera dugleg að koma með fréttir af mér og fljótlega munu koma myndir á facebook.

Þangað til næst

Ebba Karen