Sælir kæru vinir. Nú er ég loksins orðin nettengd hérna í útlandinu og ætli það sé ekki við hæfi að skella inn eins og einni ferðasögu.
Það má með sanni segja að það hafi gengið á með skin og skúrum hjá mér og Völu á þessu ferðalagi. Svona til að byrja alveg á byrjuninni þá fór ég í Landsbankann niðrí bæ til að fá mér evrur, bað um 150 evrur, í einum 50 evru seðli og svo rest í 20 eða 10. Hún hendir í mig peningnum og ég ætla að athuga á leiðinni út hvort þetta sé ekki rétt og byrja: 20-40-60-80-100 og svo 50 evru seðillinn. Núna hugsaði Ebba "Fjandinn hún lét mig bara hafa 100".....
Taldi aftur til að vera alveg viss: 20-40-60-80-100 og svo 50 evru seðillinn. "Æh vá ég trúi ekki að ég þurfi að fara aftur inn til að fá 50 í viðbót"
Svona fyrir þá sem eru skarpir þeir átta sig alveg á því að ég var ekki alveg með talninguna á hreinu og varð líka nett vandræðaleg þegar gjaldkerinn taldi peninginn aftur fyrir mig.
En ok, hvað um það. Næsti áfangastaður var Keflavík þar sem mín mátti gjöra svo vel og borga fyrir 7 kíló í yfirvigt. Pabbi kallinn pungaði út fyrir því en ég vissi að mín beið annað eins þegar ég myndi lenda í London. Sem er einmitt næsta mál á dagskrá. Lentum aaðeins á eftir áætlun í London, sem var ekki alveg nógu sniðugt þar sem tíminn fyrir næsta flug var ekkert rosalega mikill. Auk þess þurftum við að bíða mjög lengi eftir að töskurnar færu á bandið svo ég og Vala vorum orðnar mjög stressaðar. Svitnuðum verulega í lófunum.
Svona til að bæta gráu ofan á svart þá var heljarinnar vesen að vera með yfirvigt hjá Easy Jet, þurfum að fara á information desk og borga þar og fara svo með töskurnar í annað flugfélag því færibandið hjá Easy Jet var bilað.
Á þessum tímapunkti vorum við orðnar mjög svangar, við bara urðum að kaupa okkur e-ð að borða. Hlupum inn á McDonalds og sáum þar á skjá að okkar flug var með statusinn "Boarding". Ég hugsaði ekki neitt annað en "Fokk fokk fokk fokk", reif matinn af afreiðsludömunni og ég og Vala löbbuðum á öðru hundraðinu að hliði 19. Og sem betur fer vorum við á hliði 19 en ekki 95! Okkur til mikillar gleði mátti taka með sér mat inní vélina en okkur ekki til eins mikillar gleði var svona "free seating" þannig að við lentum næstum aftast og ekki við hlið við hlið.
Eftir að við lentum í Milan, tók við hiti og sviti. 26 gráður og 27 kg taska sem ég þurfti að dröslast með í Metro, ekkert neitt ofboðslega gaman en sem betur fer fengum við oft hjálp frá hjálpsömum ítölum. Gáfumst upp á Metro og Strætó og tókum leigubíl til nýja heimilis míns.
Verð nú að viðurkenna að ég var stressuð að hitta nýju "fjölskylduna mína", en þetta gekk allt vel. Við losuðum okkur við dótið og fengum okkur að borða og uppí lest til Róm.
Við vorum í sparnaðarpakkanum og tókum næturlest en ekki með rúmum, heldur bara venjulegum sætum. Mættum í lestina og okkur leist bara nokkuð vel á þetta, ágætis stærð af sætum, mjúk og fín. Vorum með glugga sæti og alles svo þetta lúkkaði allt mjög vel. En auðvitað gat þetta ekki verið svona frábært, við vorum í 6 manna klefa með 4 öðrum ítölskum strákum og þegar það kom að því að sofa þá var það bara ekki fræðilegur möguleiki. Það var hlandlykt í klefanum (sem ég vil meina að fylgdi strákunum), mikil læti í lestinni og það var ekki fræðilegur að koma sér fyrir í sætunum. 8 tíma lestarferð og ég svaf í svona 2 tíma, en það þýddi ekkert að væla yfir því og við byrjuðum að rölta um Róm kl 8 um morguninn. Það byrjaði á að HELLIRIGNA, og ég nota stóra stafi því ég hef án gríns aldrei séð jafn mikla rigningu. Við vorum ekki með neina regnhlíf og urðum alveg gegnvotar en það lagaðist þegar 28 gráðu hitinn og sólin mætti á svæðið, þá urðum við alveg þurrar.
Náðum að skoða meðal annars Vatikanið og Colosseum og ég mun setja myndir inn á facebook við tækfæri.
Næsti áfangastaður var Feneyjar og við ætluðum ekki að spara í þessu tilfelli og keyptum okkur næturlest MEÐ rúmum, sem var algjör lúxus miðað við hina lestarferðina. Mættum kl hálf 6 um morguninn og þá var enginn á ferð, röltum um í algjörri þögn og það var geðveikt! Fundum lítið krúttlegt hótel og gátum ekki beðið eftir að fá það eftir hádegi til að leggja okkur aðeins, vorum svo þreyttar eftir allt ferðalagið.
Mættum á staðinn, fengum lyklana í hendurnar og hlupum uppá herbergi, ég henti mér í sturtu og uppí rúm. Eeeeeen auðvitað gátum við ekki verið svona lengi í paradís, hótel kerlingin bankaði uppá hjá okkur eftir 20 mínútna lögn og sagði við þyrftum að yfirgefa herbergið því það var "overbooked".
Ætlaði að finna annað handa okkur, en allt var fullt. Við ákváðum bara að fara til baka til Milanó og slappa af hjá fjölskyldunni minni.
Fjölskyldan mín samanstendur af Mirco (pabbinn), Barbara (mamman) og litla óargadýrinu Mariavittoria. Hún er 6 ára mjög virk stelpa sem er bara eitt krúttlegasta barn sem ég hef hitt. Hún er í enskum skóla og talar mjög góða ensku, miklu betri ensku en pabbi sinn og hann þarf oft að fá hjálp frá henni.
Ibúðin er mjög fín, allt í mósaíkflísum á gólfinu og óteljandi listaverk og skúlptúrar, þau eiga listasöfn og eru greinilega að taka e-ð með sér heim úr vinnunni heh. Herbergið mitt er rosa rúmgott og fínt og með risastórum fataskáp, ég nota sirka 1/10 af honum. Ætti reyndar ekki að vera í neinum vandræðum með að fylla hann svona miðað við allar fatabúðirnar sem eru hérna.
Maður hefur oft heyrt að Milanó sé tískuborgin og hér sé allt high fashion, ég hugsaði alltaf að þetta væri svoltið mikið ýkjur en guð nei. Fórum rúnt í gær um Mílanó og an gríns, önnur hver búð (og rúmlega það) er Armani Jeans, Armani coffe shop, Jimmi Chu, Gucci, Luis Vitton og hvað sem þetta allt heitir.
Það er líka kirkja á hverju götuhorni og allar byggingarnar eru mjög flottar, með styttum af ljónum og hestum og englum.
Ég fékk að heyra það frá mjög mörgum, eiginlega bara öllum, að ég ætti að passa mig á ítölsku strákunum. Ég tók mig til og skoðaði þá nokkuð gaumgæfilega og ég er búin að komast því að þeir skiptast í 3 hópa. Fyrsti hópurinn eru gömlu kallarnir, sem mér finnst lúmskt krúttlegir en hálf asnalegir líka. Annar hópurinn eru sætu strákarnir sem eru samt svo flaming gay að það er bara vandræðalegt, þeir eru í bleikum magabolum og/eða mjög flegnum bolum með v-hálsmáli. Sá einn sem var flegin niður að nafla. Svo er það síðasti hópurinn og það eru bara mjög sætir strákar en þeir eiga allir, undantekningalaust, kærustur. Það klikkar ekki, ef sætur gaur kemur inní lest, þá er hann með stelpu upp á arminn. Alveg ótrúlegt!
Stelpurnar hérna eru hinsvegar allar eins, allar gellur hvort sem þær eru 20 ára eða 60 ára. Þær reyna allar að vera chicks, í hælum með Gucci tösku (gervi eða ekta) og mjög margar stelpur í magabolum og í buxum sem eru bara svona rétt ofan við lífbeinið. Ég og Vala erum bara eins og útigangs menn við hliðina á þeim, í íþróttabuxum og venjulegum hlýrabol úr Centro !
En já þetta var fyrsta blogg frá Mílanó, og ég vona að þið hafið notið þess að lesa það!
Ég reyni svo að vera dugleg að koma með fréttir af mér og fljótlega munu koma myndir á facebook.
Þangað til næst
Ebba Karen
No comments:
Post a Comment